140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Siglufirði.

171. mál
[19:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls um þetta mikilvæga málefni vegna þess að við erum að tala um mjög brýnt mál. Annars vegar að tryggja öryggi íbúanna í firðinum og hins vegar að standa að uppbyggingu metnaðarfullra atvinnumála í sveitarfélaginu. Ég fagna því að ofanflóðasjóður hafi gefið það út að framkvæmdir hefjist árið 2013 og þeim lýkur þá væntanlega ekki seinna en árið 2016. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort að það sé einhver möguleiki að hæstv. ráðherra reyni að beita áhrifum sínum, og þá væntanlega í samráði við okkur þingmenn, til að koma einhverjum framkvæmdum af stað árið 2012.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu dró ofanflóðasjóður verulega úr umsvifum til að mæta þenslunni á sínum tíma. Nú held ég að allir séu sammála um að slíkt er ekki fyrir hendi núna og eins og fram hefur komið eru verulegir fjármunir í sjóðnum sem ætlað er að tryggja öryggi íbúa í sveitarfélögum eins og í Fjallabyggð. Er þá ekki lag núna að gefa í og drífa framkvæmdir af stað á eins miklum hraða og hægt er? Þannig getum við staðið að því að auka umsvif atvinnulífsins á svæðinu en ekki síður gefið skýr skilaboð til framtíðar um að menn vilji standa vörð um og efla ferðaþjónustu á svæðinu sem hefur verið að eflast til mikilla muna. Núna á þremur, fjórum árum er búið að setja nokkur hundruð milljónir í ferðaþjónustuverkefni í þessu sveitarfélagi. Ef fram heldur sem horfir getum við horft upp á umsvif á næstu árum upp á milljarða króna og það hlýtur að vera fagnaðarefni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að flýta þessum áformum með einhverjum hætti.