140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fráveitumál sveitarfélaga.

172. mál
[19:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna um efnið og hæstv. ráðherra fyrir skýr svör þó að ég sé hins vegar ekki ánægður með öll þau svör sem koma frá henni.

Mér finnst það vera sérkennilegt að ríkisvaldið skuli standa fyrir þeirri mismunun að ekki hafi verið hægt að uppfylla þá heimild sem öllum stóð til boða á þeim tíma sem lögin voru í gildi, að einhverjir sitji allt í einu eftir með svarta pétur af því að peningarnir voru búnir. Mér finnst það enn verra fyrir þau svæði landsins sem þurfa að fara í dýrustu framkvæmdirnar. Þau voru einfaldlega ekki í stakk búin til þess eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á. Það var verið að svelta sveitarfélögin í tekjum alls staðar á landinu vegna þess að hér á höfuðborgarsvæðinu græddu menn svo mikið á lóðapeningum að ríkisvaldið neitaði að taka upp tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög úti á landi fengu ekki eðlilegar tekjur á þeim tíma og gátu þar af leiðandi ekki staðið fyrir þeim framkvæmdum sem þau áttu að gera, þar á meðal þessum hluta.

Nú er líka ljóst að ríkisvaldið er að setja auknar kröfur, eins og við höfum rætt. Það er líka alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að fráveitumálin eru á hendi sveitarfélaga, en ríkisvaldið setur alls kyns mál á hendur sveitarfélaga. Við ræddum það í ágústmánuði 2009, m.a. að frumkvæði hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar í þessari umræðu, að ríkið yrði að fara varlega í að setja auknar kröfur á sveitarfélögin í því árferði sem við erum, í þessari kreppu. Þess vegna kemur vel á vondan, eins og einhver gæti sagt, að við settum t.d. vatnatilskipun ESB og flokkun vatns yfir á sveitarfélögin með ævintýralegum kostnaði fyrir oft og tíðum sömu sveitarfélögin, landfræðilega stór en ekki með tekjulega burði til þess að taka á málunum. Mér finnst ekki ásættanlegt (Forseti hringir.) ef ríkisvaldið ætlar ekki að koma að því máli.