140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fráveitumál sveitarfélaga.

172. mál
[19:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa mjög svo gagnlegu umræðu. Í raun endurspeglar þessi umræða miklu stærra viðfangsefni sem við kannski gefum okkur of sjaldan tækifæri til að ræða í þingsal sem eru bæði tekjuskiptingarmálin og tekjustofnamál sveitarfélaganna, verkefni þeirra, kostnaðarmat, innleiðingar nýrrar löggjafar á herðar sveitarfélögum o.s.frv. Þetta eru allt saman mjög brýn umræðuefni og ekki síst vegna þess að á Íslandi búum við því miður enn við það ástand, ef svo má segja, að tilfinning flestra sveitarstjórnarmanna er sú að ríkið sé með einhverjum hætti yfirsett sveitarfélögunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ganga í að breyta þeirri sýn vegna þess að hér er um að ræða tvær hliðar hins opinbera sem báðar eru jafnmikilvægar, báðar fara með innheimtu opinbers fjár, úthlutun þess í þágu íbúanna og ættu náttúrlega að vera samherjar í því en ekki að togast á um stórt og smátt.

Varðandi tímafrestinn sem var frá 1995–2005, fyrst með tíu árum og síðan með framlengingu til þriggja ára, má með réttu segja að sveitarfélögin hafi haft þó nokkuð rúman tíma til að bregðast við og innleiða umbætur á fráveitum sínum, enda gerðu það velflest sveitarfélög. Þess vegna er einmitt mikilvægt, þar sem minni hluti Íslendinga eða íbúa landsins býr við ófullnægjandi aðstæður hvað þetta varðar, að setja nú þegar í gang aðgerðaáætlun í samráði Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að koma þessu í fullnægjandi horf.