140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Rætt hefur verið um það í sambandi við aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin verði okkur þar hvað erfiðust. Nú liggur fyrir skýrsla um áhrifin af ESB-aðildinni á landbúnaðinn og af þeirri skýrslu er ljóst að áhrifin eru mjög mikil. Þetta er skýrsla sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttir unnu.

Niðurstaðan er sú að sauðfjárrækt, svínarækt, blómaframleiðsla, framleiðsla kúabænda, kjúklingabænda og eggjaframleiðendur mundu að öllum líkindum ekki lifa af þá tekjuskerðingu sem þeir yrðu fyrir með inngöngu í ESB. Þetta kemur fram á bls. 31 í skýrslunni. Í skýrslunni er líka bent á að til að þessar búgreinar muni lifa af þurfi innlendur stuðningur við þær að aukast um allt að 6–7 milljarða kr. eða um 75% miðað við innlendan framleiðslustuðning sem nú er við lýði, þ.e. úr 9 milljörðum í allt að 15,7. Telja menn líklegt að um þetta skapist pólitískur stuðningur hér á landi? Eru þeir sem annars vegar tala fyrir aðild að ESB og hins vegar ræða um að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til verndar innlendri búvöruframleiðslu að boða það að íslensk stjórnvöld lýsi sig reiðubúin til að stuðla að svo auknum stuðningi við íslenskan landbúnað? Er það t.d. stefna Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum að auka innanlandsstuðning við íslenskan landbúnað um allt að 6–7 milljarða kr.? Það væru þá mikil tíðindi.

Auk alls þessa er ljóst að samsetning íslenskrar búvöruframleiðslu mundi breytast mjög mikið við inngöngu í ESB. Það má taka dæmi af nýmjólkuframleiðslu sem gæti notið fjarlægðarverndar en það er sá hluti sem skýrsluhöfundar segja að sé rekin með tapi. En ýmis úrvinnsla mjólkurinnar, svo sem eins og ostagerð, mundi þá verða erlendis og fara halloka hér innan lands.

Skýrsluhöfundarnir vekja líka athygli á því að þeir taki ekki tillit til þess að með því að innflutningur á kjúklingum, svínakjöti og fleiri kjöttegundum mundi vitaskuld hafa áhrif á neyslumunstur annarra kjöttegunda. Þær gæfu eftir, svo sem dilkakjötsframleiðslan, þannig að áhrifin yrðu enn þá meiri en skýrslan bendir þó á. Þetta eru staðreyndir (Forseti hringir.) sem menn vera að fara að hafa í huga og hætta að tala tungum tveim þegar kemur að ESB og landbúnaðinum.