140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég skil vel skoðanir hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þegar hún fer yfir það hvernig komið er fram við hv. þingmenn þegar þeir biðja um upplýsingar. Ég kem hér til að ræða nákvæmlega það sama. Ég veit ekki hvort þið áttið ykkur á því en núna eru stóru …

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að beina máli sínu til forseta úr ræðustóli.)

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á þessu. Ég veit ekki hvort virðulegur forseti áttar sig á því en núna er það staðfest að meirihlutaeign í bönkunum er á hendi vogunarsjóða. Vogunarsjóðir eru ekki langtímafjárfestar, það eru aðilar sem hugsa um skammtímahagnað. Þeir eiga núna meiri hluta íslensku bankanna, tvo af þremur stóru. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að núna er verið að ganga frá því og hæstv. ríkisstjórn ætlar að ganga frá því á morgun að selja Byr og SpKef, m.a. Byr til þessara sömu vogunarsjóða. Hvert er kaupverðið? Það veit enginn, virðulegi forseti. Vita menn um eitthvert land sem við berum okkur saman við þar sem verið er að einkavæða fyrirtæki og það segir ekki frá kaupverðinu? Vita menn um slíkt land?

Ég er búinn að biðja núna í margar vikur um samningana milli gömlu og nýju bankanna sem allt þetta byggir á. Hæstv. fjármálaráðherra gerir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir að þessar upplýsingar líti dagsins ljós.

Virðulegi forseti. Svo bara til að segja frá aðeins fleiru er ég núna að kæra fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála það sem snýr að Seðlabankanum og Sjóvármálinu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ríkisstjórn: Eru þetta vinnubrögðin sem var lofað? Lofuðu menn þessum vinnubrögðum og ætla menn að klára að selja banka á morgun til erlendra (Forseti hringir.) vogunarsjóða og segja ekki frá kaupverðinu?