140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða undir þessum lið þau grafalvarlegu tíðindi sem má sjá í nýútkomnu blaði Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, þar sem fram kemur að af öllum verðmætum sem verða til á Íslandi fara 3–5% í það að standa undir byrði þjóðfélagsins af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Þetta er á bilinu 53–85 milljarðar á hverju ári. Þetta er niðurstaða rannsóknar af áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna á kostnað heilbrigðiskerfisins, lögreglunnar, dómstólanna, fangelsanna, barnaverndaryfirvalda og kostnað vegna umferðarslysa.

Því miður virðist flest benda til þess að þessi kostnaður muni fara vaxandi á næstu árum því að áfengisneysla hefur á síðustu 15 árum meira en tvöfaldast hér á landi, farið úr 3,5 lítrum á mann upp í 7,5 lítra og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Af þessum völdum verða að líkindum u.þ.b. 83 ótímabær dauðsföll á hverju ári, því miður, og er þá varlega áætlað.

Hver er stefnan til að takast á við þennan raunveruleika? Hún er ekki til, ekki hefur verið mótuð sérstök almenn áfengisstefna sem er ætlað að taka á afleiðingum þessa mikla og vaxandi vanda. Ég kalla eftir stuðningi við það í þinginu að hér setjist þingmenn niður úr öllum stjórnmálaflokkum, vegna þess að þetta er þverpólitískt viðfangsefni, og móti stefnu sem er ætlað að taka á þessum vanda með raunverulegum og afgerandi hætti þannig að við getum minnkað þann gríðarlega kostnað sem af þessu hlýst og ekki síður dregið úr þeim gríðarlegu þjáningum sem þessu fylgja fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landi voru. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)