140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Varðandi eignarhald kröfuhafa á bönkunum er ljóst að það eignarhald er og hefur verið umdeilt. Fyrir síðustu kosningar höfðu margir, þar á meðal Framsóknarflokkurinn, áhyggjur af því að ríkið ætti alla bankana og vildu því opna á aðkomu kröfuhafa að rekstri þeirra. Ef ég man rétt voru áhyggjur framsóknarmanna svo miklar að í kosningastefnunni fyrir kosningarnar 2009 var sérstök áhersla lögð á þetta en þar er talað um að „koma rekstri bankanna í eðlilegt horf, semja um aðkomu kröfuhafa að þeim og selja hlut í þeim þegar skapast hefur markaður með hlutabréf“.

Sú niðurstaða sem varð um að selja þá með þessum hætti ákvarðaðist af tvennu, annars vegar því að ríkisvaldið þyrfti ekki að leggja bönkunum, að undanskildum Landsbankanum, til nýtt eigið fé og hins vegar var komið í veg fyrir málaferli og deilur um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Jafnvel þótt ríkið hefði eitt og sér lagt bönkunum til nýtt eigið fé og væri eini eigandi nýju bankanna er líklegt að ríkið hefði samt þurft að semja við kröfuhafa um hlutdeild í afkomu þeirra. Með þeirri leið sem farin var sparar ríkið mikið fé í vaxtakostnaði og skuldastaða ríkisins er betri en á horfðist við hrun bankakerfisins. Þetta er auðvitað meginástæða þess að ríkið eignaðist ekki alla bankana eftir endurreisn þeirra. Kröfuhafar hafa ekki beinan aðgang að rekstri nýju bankanna en það er óheppilegt til lengri tíma að bankarnir hafi ekki eigendur sem taka á þeim ábyrgð. Ólíklegt er að margir þeirra sem eignast hafa kröfur í þrotabú bankanna vilji eiga íslenska banka til framtíðar.

Á næstu missirum þarf að koma rekstri bankanna í eðlilegt horf, setja hlutabréf þeirra á markað og tryggja dreift eignarhald. Því fyrr sem þetta gerist, því betra.