140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera það sem hægt er til að vekja athygli á því máli sem flestir hv. þingmenn hafa hér rætt. Einn hv. stjórnarþingmaður hefur rætt málið sem snýr að eignarhaldi bankanna og mér fannst vera ákveðin óskhyggja þar, í besta falli, og ég vil þess vegna upplýsa hvað kom fram á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Fjármálaeftirlitið kom þangað að beiðni okkar sjálfstæðismanna. Þar kom líka fram að það er mikil pressa á að auka arðgreiðslur út úr bönkunum.

Eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir minntist á er alveg kórrétt að þeir aðilar sem eiga bankana núna að langmestu leyti munu ekki eiga þá til langs tíma. Það er bara ekki stefna þeirra, þeir eru ekki langtímafjárfestar. Það er mjög mikil hætta á því að að menn fari þá leið að hækka verðmat á einhverju sem kannski stenst ekki nema til skamms tíma. Það er ekki gott fyrir íslenska þjóð. Við erum búin að sjá það núna svart á hvítu frá Fjármálaeftirlitinu að búið er að hækka virðismat lánasafnsins um 100 milljarða. Af því hafa tæplega 80 farið til erlendra kröfuhafa. Þær tölur tala sínu máli.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að við getum hins vegar ekkert rætt þetta. Við erum að ræða hér um hvað gerðist þegar bankarnir voru einkavæddir af þessari ríkisstjórn, en við vitum ekki staðreyndir þeirra mála því að við fáum ekki upplýsingarnar. Hvernig eigum við að taka þessa umræðu ef staðreyndirnar liggja ekki á borðinu? Hversu lengi ætlar hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að streitast á móti því að koma á framfæri þeim upplýsingum sem við sjálfstæðismenn erum búnir að biðja um núna um langa hríð svo ekki sé sagt neitt meira um það?