140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:04]
Horfa

Amal Tamimi (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni innflytjenda eru gamalt og nýtt málefni. Ég stend hér í dag til að spyrja um réttindi innflytjenda á Íslandi. Vandamálið við málefni innflytjenda er að við getum ekki spurt eitt ráðuneyti eða einn ráðherra um þau vegna þess að lög og reglur um dvalarleyfi eru í höndum innanríkisráðuneytis, atvinnuleyfi og aðlögunarferli eru í höndum velferðarráðuneytis, íslenskukennsla sem er hluti af aðlögunarferli er hjá sveitarfélögum og mennta- og menningarmálaráðuneyti svo dæmi séu nefnd.

Ég ákvað að tala um tvennt. Í fyrsta lagi íslenskukennslu sem er eitt af lykilatriðum til að aðlagast samfélaginu. Verulega hefur dregið úr framboði íslenskukennslu fyrir innflytjendur eftir hrun. Fyrir þann tíma var íslenskukennsla og framboðið langt frá því að vera fullnægjandi. Aðilar sem hafa verið að kenna íslensku hafa ekki efni á því að halda námskeið vegna skorts á fjármagni. Þegar skorið var niður á þessum sviðum heyrðum við engan mótmæla. Mótmæli hafa verið á flestum sviðum samfélagsins nema innflytjendamálum. Ef við viljum forðast þau vandamál sem önnur lönd hafa lent í þurfum við að leggja meiri áherslu á eða einbeita okkur meira að hvoru tveggja, íslenskukennslu og móðurmálskennslu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir sem ekki kunna móðurmál sitt eiga erfitt með að læra nýtt tungumál.

Hitt sem ég vil ræða hér í dag er túlkaþjónusta. Samfélagstúlkun er mikilvæg þjónusta sem við þurfum að byggja upp. Túlkaþjónusta snýst ekki bara um manneskju sem talar tvö tungumál, heldur er samfélagstúlkun miklu stærra og flóknara mál. Í samfélagstúlkun er um að ræða aðila sem þekkir báða menningarheima og útskýrir hluti fyrir báðum aðilum. Samkvæmt lögum er skylda að bjóða túlk hjá lögreglunni, lækni og dómstólum. Aðrir sem panta túlk eru til dæmis skólar, félagsþjónusta og barnaverndarnefnd þegar þeim finnst nauðsynlegt að nota túlk og það er gert.

Við vitum hins vegar að þetta er ekki í nægilega góðum farvegi, ekki síst innan heilbrigðisstofnana þrátt fyrir lög um réttindi sjúklinga sem kveða á um skilning milli heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings. Sumir spyrja: Hvenær eiga innflytjendur að hætta að fá túlkaþjónustu og læra tungumálið? Ég segi: Þegar Ísland býður upp á íslenskukennslu sem er ókeypis og aðgengileg fyrir alla með tilliti til menntunar, bakgrunns o.s.frv.

Spurning sem mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra er hvenær sett verði lög um rétt fólks til túlkaþjónustu hjá sýslumanni á Íslandi. Ég spyr því að dæmi eru um að konur af erlendum uppruna hafi skrifað undir skjöl sem þær skilja ekki. Ég ætla að segja sögu, með leyfi forseta. Kona sem var í ofbeldissambandi fór til félagsráðgjafa til að spyrja hann hvernig hún gæti sótt um skilnað. Þegar félagsráðgjafinn fletti henni upp í þjóðskrá sá hann að konan var fráskilin. Hún vissi það ekki. Eiginmaður hennar hafði þóst vera að kaupa bíl og sagt henni að hún þyrfti að skrifa undir, sem hún og gerði. Þau fóru saman með pappírana til sýslumanns, hún áttaði sig hvorki á því að hún væri hjá sýslumanni né heldur hvað hún væri að skrifa undir. Þetta er nýlegt dæmi. Hún skildi við manninn sinn án þess að vita það og hann býr enn með henni.

Virðulegi forseti. Við þurfum lög til þess að vernda réttindi allra, m.a. útlendinga.