140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Amal Tamimi fyrir að hefja þessa umræðu sem spannar ýmsa þætti, þar á meðal vék hv. þingmaður að því í upphafi máls síns að málefni útlendinga heyra undir mörg ráðuneyti sem torveldi þeim sem vilji leita réttar síns aðkomu að málinu. Þetta er alveg rétt og ég vil í því sambandi vekja athygli á því að ég skipaði fyrir nokkru síðan nefnd þriggja ráðuneyta til að móta stefnu í málefnum útlendinga utan EES og þá einkum því sem lýtur að aðgengi að landinu. Þar er tekið á ýmsum öðrum málum líka, jafnframt því sem við leggjum til grundvallar önnur sjónarmið en hafa lengst af verið við lýði, þ.e. að í stað þess að horfa til vinnumarkaðstengdra þátta horfum við núna til þess sem ég vil kalla mannúðarsjónarmiða. Þar hefur orðið áherslubreyting að þessu leyti.

Í annan stað vék hv. þingmaður að mikilvægi tungumálakennslu, íslenskukennslu fyrir útlendinga og einnig mikilvægi þess að börn ættu kost á því að læra móðurmál sitt. Ég tek heils hugar undir þessi sjónarmið. Hv. þingmaður var síðan með ákveðna spurningu sem snýr að túlkaþjónustu og þá einkum hjá sýslumannsembættunum. Í upphafi þessa árs kom upp umræða sem laut að túlkaþjónustu hjá sýslumannsembættum og í framhaldinu óskaði ég eftir svörum frá öllum sýslumannsembættum um framkvæmd þessara mála þar. Líkt og hv. þm. Amal Tamimi vekur athygli á hér á Alþingi er það svo að lagaleg skylda hvílir ekki á sýslumannsembættum hvað þetta snertir, þ.e. að bjóða upp á túlkaþjónustu. Hins vegar hafa embættin samkvæmt mínum upplýsingum eftir fremsta megni reynt að koma til móts við fólk sem ekki skilur íslensku, ensku eða eitthvert Norðurlandatungumálanna. Af svörum sýslumannsembættanna að dæma og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í hendur hefur það ekki gerst að gagnaðili í deilumáli túlki fyrir útlending.

Af hálfu ráðuneytisins er gert ráð fyrir að sýslumenn séu sveigjanlegir í þessum efnum á jákvæðan hátt og miðað við þau svör sem mér hafa borist eru þeir það almennt. Hins vegar kann að vera rétt að þetta ætti að vera í formlegri farvegi, hvort sem væri í lögum eða í sérstakri reglugerð. Hjá innanríkisráðuneytinu hafa verið unnin drög að reglugerð sem á að vera undirstofnunum, þar með talið sýslumannsembættum, til leiðbeiningar er varðar túlkaþjónustu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir því að stjórnvöld meti hvort þörf sé á túlki en taki einnig mið af óskum og þörfum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Jafnframt geti komið til álita að kalla til túlk þótt viðkomandi telji það ekki nauðsynlegt ef það er metið svo að viðfangsefnið varði mikilvæg réttindi, hagsmuni eða skyldur. Þar með er gert ráð fyrir að þetta sé matskennt en engu að síður eru settar fram skýrar leiðbeiningar um til hvaða þátta beri að líta við þetta mat.

Þessi reglugerð yrði í ágætu samræmi við það fyrirkomulag sem lagt er til í skýrslu sem Margrét Steinarsdóttir vann fyrir velferðarráðuneytið um túlkaþjónustu. Innflytjendaráð hefur einnig vakið athygli á brýnni þörf til úrbóta í þessum efnum. Þá hefur komið til greina að gera lagabreytingu og einkum er horft til stjórnsýslulaga til að styrkja lagastöðu þeirra sem á túlkaþjónustu þurfa að halda. Það mál er reyndar núna til skoðunar í forsætisráðuneytinu.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Amal Tamimi fyrir að hafa tekið þessa umræðu upp í þingsölum. Ég vil bæta því við að sýslumannsembættin hafa bent á að við þurfum að vera sjálfum okkur samkvæm, hvað fjármálin varðar, ef við leggjum auknar kvaðir á sýslumannsembættin. Þetta kostar peninga og ég held að það sé mjög mikilvægt að við hér á þingi tökum upp þessa umræðu. Ef við viljum færa þetta inn í lagalegar skyldur eins og gerist sums staðar á Norðurlöndunum, t.d. Finnlandi og Svíþjóð, (Forseti hringir.) þá þurfum við líka að sjá til þess sem fjárveitingavald að peningar fylgi með.