140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:26]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Amal Tamimi fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Ef nokkur þjóð í veröldinni ætti að taka vel á móti innflytjendum eru það Íslendingar því að ef grannt er skoðað erum við öllsömul ekkert annað en innflytjendur. Hér voru engir frumbyggjar þegar landnámsmennirnir komu hingað frá fjölmörgum löndum. Þeir áttu það sameiginlegt að þá vantaði land, þá vantaði staðfestu til að geta séð fyrir sér og lögðu á sig miklar hættur og erfiðleika til að finna stað í veröldinni þar sem þeir gætu séð fyrir fjölskyldum sínum, alið upp börn sín og átt framtíð.

Við tökum ekkert sérstaklega vel á móti innflytjendum. Við erum með takmarkanir á heimsmælikvarða á því að fólk flytjist hingað til landsins. Við erum með skriffinnskumartröð sem er örugglega á alþjóðamælikvarða sem mætir þessu fólki og svo gerum við kröfu til þess að það læri eitthvert erfiðasta tungumál sem talað er í Evrópu jafnframt því sem við leggjum mjög lítið af mörkum til að svo megi verða.

Það er svo fjöldamargt sem mann langar að segja um innflytjendamál en tíminn leyfir ekki. Mér finnst ekki afrek hjá mér að vera Íslendingur. Ég fæddist hérna, ég lærði tungumálið án þess að hafa fyrir því en ég fagna því fólki sem kemur hingað og kýs að búa á þessu landi og deila kjörum með mér og veita mér innsýn í menningarheim sinn, auðga líf mitt og land og ég býð það hjartanlega velkomið.