140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir hér vil ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja umræðu um málefni innflytjenda í þinginu og taka þau á dagskrá eins og þessi umræða gefur tækifæri til. Ég tek þó undir með öðrum sem hafa nefnt að á svona stuttum tíma verður umræðan brotakennd en hún gæti hugsanlega orðið upphaf að ítarlegri umræðu um þá málaflokka sem tengjast þessu því að þeir eru fjölmargir, bæði þeir sem heyra undir hæstv. innanríkisráðherra og snerta útlendingalöggjöf og þess háttar og eins þeir sem heyra undir embættisstörf hæstv. velferðarráðherra og snerta vinnumarkað og aðlögun erlendra ríkisborgara sem hingað koma.

Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að útlendingar sem hafa tekið sér bólfestu hér hafa auðgað samfélagið gríðarlega mikið á undanförnum árum. Það hafa orðið miklar breytingar. Alþingi og stjórnvöld voru hugsanlega nokkuð sein að taka við sér en nokkur stefnumörkun átti sér þó stað á árunum fyrir hrun. Ég hygg að frá hausti 2008 hafi málefni innflytjenda farið nokkuð til hliðar, bæði í störfum okkar og í opinberri umræðu, en eins og margir hafa bent á í dag er full ástæða til að huga að ýmsum þáttum í því sambandi, ekki síst þeim sem hér hafa verið nefndir og varða íslenskukennslu, móðurmálskennslu, túlkaþjónustu þar sem um er að ræða mikilvæga opinbera þjónustu og þess háttar.