140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vikið að mörgum þáttum, skyldum en sumum ólíkum, framlagi Íslendinga til málefna flóttamanna, samskipti ríkra þjóða og snauðra og að við þurfum að standa okkur þar, það er alveg rétt. Ég hef stundum hreyft því sjónarmiði sem oft hefur verið haldið fram víðs vegar um heiminn að ef ríkar þjóðir afléttu ránsvöxtum á lánum sem hvíla á fátækum ríkjum, ef arðráni linnti, ef stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hættu að þvinga fátækar þjóðir til að afsala sér dýrmætum eignum sínum væri kannski meira sem áynnist eða gerðist en með beinu framlagi án þess að hreyfa við þessum þáttum.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir vék aftur að þeirri hugmynd að við settum á laggirnar embætti umboðsmanns. Ég er í sjálfu sér hlynntur þeirri hugsun sem reifuð var. Þetta er eitt af því sem starfshópurinn sem ég vék að hér áðan, sem er að skoða málefni útlendinga í víðu samhengi, er að skoða og samstarfskona mín í ráðuneytinu sem stýrir þeim hópi, Halla Gunnarsdóttir, hefur tekið þennan þátt sérstaklega upp hvernig svo sem við leysum hann, hvort sem það er með sérstöku embætti eða með öðrum hætti. Þar kem ég að þeim þætti sem málshefjandi vék að, hve mikilvægt það er að fólk hafi aðkomu að einum stað til að leita lausna á málum sínum. Ég tek einnig undir það sem hv. málshefjandi vék að um tungumálið, bæði að kenna fólki sem hingað kemur íslensku og að börn sem hér eru fái að njóta móðurmáls síns. Það er mjög mikilvægt. Við verðum að tryggja það að fjölskyldan geti talað saman og það rofni ekki tengslin þar á milli. Það er grundvallaratriði. (Forseti hringir.)

Ég tek undir með hv. þm. Þór Saari, það er jákvæður tónn í þessari umræðu. Við þurfum að halda henni áfram. Ég vík aftur að því að hér er fjárveitingavaldið. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka þá umræðu, athafnir þurfa að fylgja orðunum og fjárveitingavaldið þarf (Forseti hringir.) að láta peninga af hendi rakna.