140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[14:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Því er til að svara varðandi tímamörkin til að ná böndum yfir vegslóða og þau sem ég nefndi í framsögu minni annars vegar 2014 fyrir hálendi og 2016 fyrir láglendi. Ég tek undir það með hv. þingmanni að meira að segja þessi ártöl eru helst til rúm. Við mundum auðvitað vilja einhenda okkur í þetta og forgangsraða í þágu þessara verkefna. Það kostar peninga og það kostar það að veita þarf fjármagn til Landmælinga til að hægt sé að forgangsraða í þágu þessa verkefnis. Ég vil leyfa mér að líta svo og segja það í þessari umræðu að það að koma böndum á utanvegaakstur er kannski eitt stærsta náttúruverndarmálið sem við höfum á okkar borðum. Það er mín eindregna afstaða að þar megum við engan tíma missa og ég treysti því að ég eigi bæði umhverfis- og samgöngunefnd að og aðra hv. þingmenn í því að horfast í augu við að það útheimtir bæði starfsfólk og fjármagn að gera þetta innan viðunandi tíma.

Hin fyrirspurn hv. þingmanns varðar innköllun eldri korta. Það er ekki útfært í smáatriðum hér en hlýtur að vera mikilvægt að ná utan um það mál í kjölfarið á því að við berum gæfu til þess að kortleggja þetta með viðunandi hætti og þar með verði það þannig að þeir sem um landið fara geti treyst því að þau kortagögn sem fyrir liggja, hvort sem eru í verslunum eða upplýsingamiðstöðvum eða annars staðar, séu áreiðanleg hvað varðar bæði lögmæti og öryggi.