140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[15:00]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil sem nefndarmaður og 1. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar fagna þessu fram lagða frumvarpi um breytingu á lögum um náttúruvernd sem er, eins og fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra, liður í heildarendurskoðun náttúruverndarlaga og afrakstur allvíðtæks samráðs um fyrstu skref sem snerta aðallega tvö efnisatriði þ.e. akstur utan vega, sem er þeim þingmanni sem hér stendur hugleikið mál, og hins vegar um sérstaka vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa.

Eins og fram kemur í greinargerð og sjá má af frumvarpinu er verið að bæta inn í náttúruverndarlögin fjórum hugtökum og skilgreiningum þeirra. Fyrstu þrjú hugtökin eru: „framandi lífverur“, „innflutningur lifandi lífvera“ og „líffræðileg fjölbreytni“. Breytingar á náttúrufari í landinu og breytingar á atvinnu- og búskaparháttum kalla vissulega á nýja hugtakanotkun og góðar skilgreiningar sem hér er leitast við að setja fram.

Síðan er hér líka að finna fjórða hugtakið, þ.e. „vegur“. Segja má að fjölgun ferðamanna og aukin sókn í útivist, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna, kalli á að reglur séu skýrar um utanvegaakstur og að ljóst sé við hvað er átt. Þar af leiðandi fagna ég því að í frumvarpinu skuli vera gerð tilraun til, og mér sýnist vera nokkuð fullnægjandi tilraun, að skilgreina hugtakið vegur og skerpa nánar á því hvað við sé átt með utanvegaakstri.

Ég vil nota tækifærið og taka heils hugar undir það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari sínu áðan að utanvegaakstur er verulegt umhverfisvandamál á Íslandi og þar bera ýmsir ábyrgð að reyna að stemma við stigu, ekki síst útivistarsamtök og ýmsir ferðaþjónustuaðilar því að við höfum séð auglýsingar, allgassalegar auglýsingar, sem ekki beint geta talist vistvænar eða umhverfisvænar. Auðvitað hlýtur maður að reyna að höfða til ábyrgðar allra sem koma að skipulagningu útivistar og ferða innan lands að starfa með stjórnvöldum að því að reyna að tryggja að vel sé gengið um landið og landið sé raunverulega fyrirmyndarkostur til ferðamennsku.

Eins og fram hefur komið er frumvarpið afrakstur víðtæks samráðs um þessi fyrstu og brýnustu skref í átt að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa. Samræðan mun halda áfram innan vébanda þingsins og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem núna mun taka málið til sín og vafalaust taka málinu vel og leggja því gott til.