140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[15:04]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar rétt að koma hingað upp og fagna því máli sem hæstv. umhverfisráðherra leggur fram. Það er mikið fagnaðarefni að það sé komið fram hér og að við fáum tækifæri til að fjalla um það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Mig langar líka að koma inn á það sem rætt var í andsvörum, þ.e. mikilvægi þess að settar séu niður á blað skilgreiningar hvað teljist vegur og vegslóði og hvað geti talist vera utanvegaakstur. Þetta er eitthvað sem kemur reglulega upp í umræðunni og mjög gjarnan í tengslum við einhver spjöll sem unnin hafa verið á náttúrunni, nú síðast í sumar þegar stórt ökutæki festist utan vegar í einni af náttúruperlum Íslands.

Því miður hefur skort á að hægt sé að taka á þeim brotamönnum með afgerandi hætti. Þess vegna hef ég lagt fram annað frumvarp sem felur í sér þyngingu refsinga, eða möguleikana á því, sé um stórfelld náttúruspjöll að ræða. Ef náttúrugersemar, sem allir væru sammála um að væru náttúrugersemar, skemmdust af völdum einhvers sem hefði ekki hugað að sér eða notað ökutæki á þann veg að stórfelld spjöll hlytust af, væri hægt að taka á því með afgerandi hætti þannig að það hafi forvarnagildi í sjálfu sér. Í því frumvarpi sem ég hef lagt fram er heimild til að gera t.d. ökutæki upptæk.

Ég vil líka vegna þess sem kom fram í umræðunni taka undir með hv. þingmanni Þór Saari sem undraðist þann mikla tíma sem Landmælingar ætla sér í kortlagningu. Ég held að við þurfum að hafa svolítið hraðar hendur í þeim málum. Ástæðan er augljós í sjálfu sér. Það er nauðsynlegt að taka til í þessum efnum. Á mörgum stöðum eru slóðar mjög skyndilega myndaðir, ekki þarf annað en einn jeppa fara einhverja nýja leið og þar með eru komin för og þá heldur sá næsti að þarna sé slóði sem óhætt sé að fara.

Taka þarf af öll tvímæli í þessum efnum og gefa út einn uppfærðan kortagrunn því flestir þeir sem ferðast um t.d. hálendi Íslands eða óbyggðir eru með sérstök GPS-tæki og gera þarf þá kröfu á þá að þeir séu með nýjustu útfærslu af þeim kortagrunnum sem í gangi eru og geti því vitað hvort þeir eru á vegslóða eða utan vegar. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég tók nýverið þátt í því með félögum úr Ferðaklúbbnum 4x4 að stika sérstaka leið úr Kerlingafjöllum og niður í Svínárnes sem var óstikuð en mjög greinilegur vegslóði og fjölfarinn, eða þannig séð ef hægt er að tala um jeppaleið á hálendinu sem fjölfarna, og er algeng leið á hálendinu.

Mikilvægt er að það sé gert um þá slóða sem þar eru og menn eru sammála um að eigi að nýta, þ.e. að settar séu niður stikur þannig að hægt sé að sjá hvar vegurinn liggur. Það kemur í veg fyrir skemmdir. Það kemur í veg fyrir að ökumenn reyni að fara aðrar leiðir.

Ég vil taka fram að þrátt fyrir að í þeim hópi hafi verið andstaða við þær áætlanir sem stjórnvöld hafa haft uppi er þar líka á ferðinni mikill áhugi á að vel sé á þessum málum haldið. Mikil væntumþykja er fyrir umhverfinu og þeim stöðum sem eru í þessu samhengi til umfjöllunar og það er af þeim hvötum sem slík átök eru sprottin að félagsskapur fólks í sjálfboðavinnu tekur tvo til þrjá daga í að merkja sérstaklega vegspotta á hálendinu. Mikil þörf er á að reyna eftir fremsta megni — auðvitað er ekki hægt að láta undan öllum kröfum og það þarf að vera á mörkum einhverrar málamiðlunar og skynsemi — að laða slík samtök til samstarfs í þessum efnum þannig að gott samkomulag náist um það vegakerfi sem á endanum verður niðurstaðan, þar sem við látum staðar numið og segjum: Hingað og ekki lengra. Þetta eru þeir vegir sem við ætlum að hafa og við munum ekki fara um neinar aðrar slóðir.

Sú heimild er inni sem menn hafa haft þegar frost er í jörðu og snjór yfir að aka þá utan vega. Ég held að það skipti mjög miklu að menn beiti sér fyrir því að fjármagn fari í fræðslu og forvarnir í tengslum við þessi mál þannig að starfrækt sé gott kynningarstarf.

Ég vil einnig nefna til sögunnar, út af því að mótorhjólin voru sérstaklega rædd hérna, að á vettvangi félagsskaparins Slóðavina hefur farið fram mjög virðingarverð vinna þar sem menn hafa horft til þess besta sem gert hefur verið til að mynda í Bandaríkjunum og menn hafa lagt virkilegt fjármagn og krafta í að búa til sérstakar götur fyrir vélknúin ökutæki, eins og mótorhjól og fjórhjól, því að það er enginn sérstakur vilji tel ég eða tel nokkuð víst í þeim hópum að stunda utanvegaakstur. Það eru sérstakir slóðar sem eru mjög heppilegir fyrir slík tæki en það að vera utan vega er ekki það sem sá félagsskapur og þeir sem í honum eru sækjast eftir. Auðvitað eru undantekningar á því en þar verðum við að girða fyrir og gera það með því að vera tilbúin með kortakerfi sem skilgreinir hvar má aka með því að leggja fjármuni í forvarnir og kynningu og með því að hafa refsirammann utan um brot á löggjöfinni þannig að hann fæli frá utanvegaakstri.

Ég held að ég og hæstv. umhverfisráðherra séum nákvæmlega á sömu blaðsíðu í þessum málum. Ég er hingað kominn til að brýna hana til góðra verka í þessum efnum og leggja áherslu á að reyna eftir fremsta megni að laða til sín áhugafólk og útivistarsamtök vegna þess að umferð vélknúinna ökutækja hvort sem það eru breyttir jeppar, fjórhjól, mótorhjól, reiðhjól eða hestar, er líka útivist í sjálfu sér og Ísland er útivistarparadís. Okkar náttúra er útivistarparadís vegna þess að hún er óspjölluð, hún er hrein. Þess vegna er svo stórkostlegt að ferðast um hana á margvíslegan og ólíkan hátt. Við verðum að miða þann ramma sem við setjum um þessi mál þannig að allir geti notið sannmælis og sömu tækifæra til að upplifa hina stórkostlegu náttúru sem Ísland hefur upp á að bjóða.