140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:23]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um þetta mál er það að segja að það er endurflutt frá því í fyrra. Það komst þá til 1. umr. og var tekið til íhugunar í nefnd. Óskað var eftir umsögnum eins og fram kemur í greinargerðinni og ég verð að segja sem nefndarmaður í þeirri nefnd að mér kemur á óvart að það skuli vera flutt óbreytt þó að greinargerðin hafi verið lengd örlítið frá því í fyrra. Mér þykja flutningsmenn, tíu þingmenn Suðurkjördæmis, ekki hafa tekið nægilega tillit til þess árangurs sem hinn þinglegi gangur málsins hafði þá. Það er að vísu getið um tíu umsagnir en úr þeim eru fyrst og fremst reifuð sjónarmið sveitarfélaga sem mér þóttu heldur grunnstæð en ekki getið um umsögn Skipulagsstofnunar sjálfrar sem hér er einkum undir í frumvarpinu. Mér þykir það leitt vegna þess að ég tel að sú umsögn sýni að flutningsmenn hafi farið villir vega í þessum frumvarpsflutningi.

Það er svolítið skrýtið að frumvarp til skipulagslaga sé flutt á vegum kjördæmis, af tíu þingmönnum Suðurkjördæmis, undir forustu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Þá mætti ætla að það væri eitthvað alveg sérstakt sem þetta kjördæmi hefur mátt þola eða þessir þingmenn af hálfu þeirra sem með þessi lög fara. Ég kem satt að segja ekki auga á þær raunir og óska eftir því við flutningsmann að hann skýri betur fyrir okkur af hverju Flóahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Skaftárhreppur, Ölfus og Mýrdalshreppur hafa farið svona illa út úr skipulagslögunum og rekja þá hvert dæmi fyrir sig í staðinn fyrir að hranna þeim saman.

Þegar svo margir þingmenn kjördæmis taka saman ætlar maður að eitthvað alveg sérstakt sé að, sérstaklega þegar þeir endurflytja sama frumvarp sem komst til umfjöllunar í fyrra.

Til að menn hafi allt á hreinu læt ég þess getið að ný skipulagslög voru samþykkt, ekki á síðasta þingi heldur þar áður, í september 2010. Með þeim urðu ákveðnar breytingar. Meginreglan er nú í þeim afkima skipulagslaga sem við fjöllum hér um að Skipulagsstofnun staðfestir aðalskipulag, það er meginreglan, en aðeins ráðherra í undantekningartilfellum. Þetta var öfugt áður. Gangurinn er svona:

Sveitarfélag undirbýr aðalskipulag og setur aðalskipulagstillögu í kynningu, fjallar síðan um hana og athugasemdir sem borist hafa við hana, samþykkir skipulagstillöguna og sendir Skipulagsstofnun. Það er tillaga. Ef einhverjar athugasemdir eru þar koma þær innan fjögurra vikna.

Að því loknu fer aðalskipulagið aftur í kynningu með athugasemdum Skipulagsstofnunar ef þær liggja fyrir og ef ekki næst samkomulag um þær. Að lokinni þessari kynningu samþykkir sveitarstjórn aðalskipulagið.

Sveitarstjórn sendir það til Skipulagsstofnunar til staðfestingar en áður fengu Skipulagsstofnun og ráðherra skipulagið. Þetta hefur einfaldast. Skipulagsstofnun staðfestir aðalskipulagið innan fjögurra vikna eða sendir ráðherra innan sama tímafrests tillöguna eða aðalskipulagið með athugasemdum og leggur til að staðfestingu verði frestað eða neitað að öllu eða að hluta og ráðherra tekur þá afstöðu til þess. Hann er ekki bundinn af neinum fresti.

Ég held að það efnisatriði í þessu frumvarpi sé athyglisverðast og mér finnst koma til greina að skoða það betur.

Í umsögn Skipulagsstofnunar í fyrra var rakið að árlega berast Skipulagsstofnun um 80 aðalskipulagsáætlanir eða breytingar á þeim og tíu svæðisskipulagsáætlanir eða breytingar. Í þrjú eða fjögur síðustu ár hefur þetta verið svona. Á hverju ári eru fjögur til sex tilvik af þessum 80 um lengri frest. Skipulagsstofnun tilkynnir það þá sveitarfélaginu og segir frá því hvað menn áætli að vera lengi að þessu og yfirleitt er þá um að ræða umfangsmikil og/eða flókin mál eða einhverjar aðrar ástæður sem valda því að fresturinn verður lengri. Skipulagsstofnun rekur þetta og segir síðan um frumvarp hv. þingmanns og félaga hans í kjördæminu, með leyfi forseta:

„Skipulagsstofnun telur að ef frumvarpið verður samþykkt og aðalskipulagsáætlanir geti tekið gildi án þess að nauðsynlegri málsmeðferð sé lokið geti skapast ákveðið réttaróöryggi og lagabreytingin því síður en svo fallin til þess að tryggja vandaðri vinnubrögð og skilvirkari afgreiðslu á aðalskipulagi sveitarfélaga.“

Þetta er ákaflega kurteislega orðað hjá embættismanninum Stefáni Thors sem hér skrifar undir fyrir hönd Skipulagsstofnunar og auðvitað mætti rekja ef tími verður til ýmiss konar dæmi um það hvernig slíkt réttaróöryggi gæti skapast við það að tillaga tæki gildi en væri síðan numin úr gildi og hvernig það kæmi við aðila í sveitarfélaginu. Þingmaðurinn hafði sérstakar áhyggjur af fyrirtækjunum. Einstaklingar geta lent í þessu líka með húsbyggingar og aðrar framkvæmdir. Ég tel að það standi upp á sex þingmenn Suðurkjördæmis að skýra það fyrir okkur hvernig í ósköpunum á að standa andspænis fyrirtækjum og einstaklingum í samfélaginu sem taka ákvarðanir á grundvelli skipulags í gildi og þurfa svo að endurskoða þær þegar annað skipulag tekur gildi.

Í fylgiblaði með umsögn Skipulagsstofnunar er farið yfir þau mál sem töfðust árin 2008, 2009 og 2010, fjögur til sex mál á ári. Þau eru alls 14. Þegar tafirnar sem um er að ræða í þessum 14 málum eru skoðaðar kemur í ljós að þrjú mál tefjast um viku, fjögur um hálfan mánuð, fimm mál tefjast um þrjár vikur, eitt um fimm vikur og eitt um sex vikur. Það eru sem sé aðeins tvö mál sem tefjast um meira en helmingi lengri tíma en fresturinn kveður á um. Annað þeirra, þ.e. sex vikna málið, er um Þjórsárvirkjanirnar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, flókið og yfirgripsmikið mál. Ástæðurnar sem eru nefndar í umsögn Skipulagsstofnunar eru „umfang, fjöldi athugasemda, vantar skýringar“. Oft er um það að ræða að leita þarf skýringa, jafnvel hjá sveitarfélaginu, oftast raunar, sem ekki liggja alltaf á lausu og getur verið snúið að eiga við. Fimm vikna málið varðar Glaðheima í Kópavogsbæ. Glaðheima kannast menn við frá árinu 2008, mikið mál og þar er að auki sú ástæða að fjögurra vikna fresturinn tók til jólahátíðarinnar. Reyndar eru tvö eða þrjú af vikumálunum og hálfsmánaðarmálunum líka þannig að jólin koma inn á milli og einu sinni páskar þannig að ef hv. þingmaður er að spekúlera í tímafresti ætti hann kannski líka að taka tillit til hátíða. Það eru páskar á Skipulagsstofnun og jól, líka í sveitarfélögunum sem þurfa að svara. Tvisvar er aðdragandi sveitarstjórnarkosninga og það er nefnt vegna þess að þá er erfitt að hafa samvinnu við sveitarfélög, forustumenn þeirra og embættismenn, vegna þess að þeir hafa mikið að gera í aðdraganda kosninga. Ég held að hægt sé að skýra flest þessi tilvik nokkuð greiðlega. Það er auðvitað bara minn dómur, ég er ekki forsvarsmaður fyrirtækis eða langþreyttur sveitarstjórnarmaður en mér sýnist af þessu yfirliti Skipulagsstofnunar að Skipulagsstofnun standi sig einkar vel í þessum málum. Þau undantekningartilvik sem hér eru nefnd, fjögur til sex á ári, virðast öll algerlega skýranleg.

Það er skrýtið, ég verð að segja það, að flutningsmenn skuli ekki geta þessarar umsagnar og þessa lista í greinargerð sinni. Mér finnst ósanngjarnt gagnvart Skipulagsstofnun að setja þetta aftur fram óbreytt eftir að þessar staðreyndir hafa komið fram. Það vekur spurningar um tilgang þingmálsins hjá þingmönnum Suðurkjördæmis. Vakir fyrir þeim að bæta skipulagslögin eða eru þeir einkum að vekja eftirtekt og athygli í héraði og sinna umkvörtunum sveitarstjórnarmanna til sín?

Það verður líka að athuga í þessu efni að tímafrestirnir eru að sjálfsögðu mikilvægir, enda í lögunum. Hins vegar hvílir sú lagaskylda líka á Skipulagsstofnun og ráðherra sem ég vona að ég fái smátíma til að ræða um á eftir — þá á ég almennt við ráðherra, þess vegna kalla ég hann ekki hæstvirtan. Þessar stofnanir hafa rannsóknarskyldu. Þeim ber að rannsaka í botn þau erindi sem þeim berast af þessu tagi og þessi rannsóknarskylda þýðir að gæði svarsins, gæði vinnunnar, eiga að hafa forgang fram yfir þá tímafresti sem nefndir eru ef þetta stangast á. Þetta er vinnuregla sem Skipulagsstofnun þarf að hafa í heiðri því að af tvennu illu er betra að Skipulagsstofnun fari viku eða hálfan mánuð, jafnvel þrjár vikur, fram yfir tímann þegar það eru jól, páskar, sveitarstjórnarkosningar eða miklar annir en að Skipulagsstofnun skili vondri staðfestingu, vondri vinnu í aðalskipulagi sveitarfélags þar sem fólk býr og starfar, fyrirtækin þurfa að hafa rekstur o.s.frv. Það er betra og ég óska eftir svari við því frá hv. flutningsmanni hvort hann sé sammála mér í þessu efni eða ekki, hvað honum finnst um rannsóknarskylduna og tímafrestinn eða hvort honum finnst kannski þvert á móti betra að Skipulagsstofnun standi við áætlunina í tíma en skili þá hálfu verki á móti. Það er það sem flutningsmaðurinn hvetur með nokkrum hætti til með því að setja nánast svipu á Skipulagsstofnun í þessu efni.

Um ráðherrakaflann má segja almennt svipað og um Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun segir að ef ekki er gætt að geti réttaröryggið verið í hættu. Þetta frumvarp hinna tíu þingmanna Suðurkjördæmis stuðlar ekki að vandaðri vinnubrögðum og eykur ekki skilvirkni við afgreiðsluna að mati þess sem hér stendur. Hins vegar er enginn frestur í núgildandi lögum, og þá á ég við almennan frest, fyrir ráðherra eða ráðuneytið til að skila sínu verki. Ég tel vel koma til greina að setja slíkan frest þannig að hann sé svipaður og hjá Skipulagsstofnun, fjórar vikur eða fimm. Það getur vel verið að ef við hefðum fimm eða sex vikur mundi þeim málum sem hér voru rakin fækka úr 14 í 11 kannski, ég er ekki með þau fyrir framan mig. Þau yrðu þá þeim mun færri. Það getur vel verið að vert væri að setja slíkan frest þannig að ráðherra og ráðuneyti þurfi að tilkynna sérstaklega þegar farið er fram úr, þ.e. þegar ekki er hægt að standa við tímafrestinn, hvers vegna það sé og hvenær von sé á pappírunum, á þessari lokastaðfestingu. Þetta yrðu klárlega undantekningartilvik því að það er þegar Skipulagsstofnun þarf samkvæmt nýju lögunum að senda erindi til ráðherra sem hún gerir sjaldnast. Þá væri hugsanlega ástæða til að tilgreina hvenær svarið gæti borist og þá yrðu menn heldur rólegri. Ég veit ekki hvernig stendur á því að mál hafa frestast svo mjög í ráðuneytinu sem fram gengur af orðræðu hv. flutningsmanns en þingheimur er svo heppinn að hér situr hæstv. núverandi umhverfisráðherra, og vonandi umhverfisráðherra til langrar framtíðar, og getur svarað því sjálfur á eftir hvernig á því stendur. (Gripið fram í.) Mér finnst sem sé sjálfsagt að athuga í umhverfis- og samgöngunefnd að setja ráðherra ákveðinn frest og þá hefði vissulega eitthvað jákvætt komið út úr þessum tillöguflutningi hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og níu annarra þingmanna Suðurkjördæmis sem ella er ekki sýnt að nokkru hefði breytt.