140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Forsendur þess frumvarps sem hér er mælt fyrir, ef marka má framsöguna og greinargerðina, eru þær að skerpa á regluverki stjórnsýslunnar og tryggja vandaðri vinnubrögð, og ég held að það sé rétt að við stöldrum aðeins við þann þátt. Efnisþættir frumvarpsins og áhersluatriði lúta fyrst og fremst að tímafrestum en ekki að vinnubrögðum.

Það er mikilvægt að halda því til haga að aðalskipulag verður aldrei gert öðruvísi en að gæðum vinnunnar sé haldið til haga og þau séu höfð í öndvegi, réttaröryggi íbúanna, fagleg vinnubrögð, lögmætir ferlar, að form og innihald aðalskipulagstillögunnar sé samkvæmt gildandi lögum. Það getur aldrei í sjálfu sér verið markmið sem gengur framar kröfunni um gæði að þessi skoðun Skipulagsstofnunar gangi hratt fyrir sig. Það getur ekki verið sveitarfélögum eða íbúum þeirra keppikefli að fara á handahlaupum fram hjá skýlausri gæðakröfu.

Ég vil af því tilefni líka staldra við þann þátt sem hefur kannski ekki verið nógu mikið ræddur þegar aðalskipulagsumræða er annars vegar, það er sú staðreynd að aðalskipulag varðar ekki bara tvívítt form, þ.e. kort og ákvörðun um ráðstöfun lands, heldur er ekki síður um að ræða gríðarlega mikilvæga stefnumótun sveitarfélags til langs tíma að því er varðar atvinnuuppbyggingu, samgöngur, félagsmál, skólastarf o.s.frv. Það er því afar mikilvægt að Skipulagsstofnun sem er sérfræðistofnun á sviði skipulagsmála — hún er það, hún hefur það hlutverk að gæta þess að skipulagstillögur séu í samræmi við lög — njóti trausts til þess að vinna það starf og fái til þess umboð án tortryggni.

Ég vil líka aðeins draga hér fram í umræðuna og fylgja því eftir sem hv. þm. Mörður Árnason kom aðeins að, sem er kannski þessi meginefnisþáttur frumvarpsins, þ.e. að stytta tímann, að horfa til þeirra breytinga sem urðu við endurskoðun skipulagslaga á árinu 2010. Það urðu nokkur tímamót hér í þingsal þar sem tókst að ljúka endurskoðun skipulagslaga eftir að ráðherrar allra flokka, að ég held, höfðu staðið hér og mælt fyrir endurskoðun skipulagslaga og tókst með atkvæðum allra þingmanna að standa með þeirri breytingu, meðal annars að sammælast um gerð landskipulagsáætlunar í sátt við sveitarfélögin og Samband sveitarfélaga sem var mikilvægt skref í áttina að því að fá heildaryfirsýn yfir ráðstöfun lands til lengri framtíðar. Á þeim tíma var gerð sú breyting á skipulagslögum að Skipulagsstofnun var að meginstefnu falið það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra eins og var samkvæmt eldri lögum og eins og hér er ágætlega búið að fara yfir. Umhverfisráðherra ber hins vegar samkvæmt nýjum lögum að staðfesta skipulag í ákveðnum tilvikum þegar Skipulagsstofnun telur að fresta eða synja beri staðfestingu skipulagstillögu. Þá fær ráðherra tillöguna til meðferðar. Þessi breyting á lögunum felur í sér einföldun á stjórnsýslu og kemur því til móts við þær röksemdir sem hér eru ræddar sérstaklega að því er varðar að skerpa á regluverki stjórnsýslunnar og gera ferla liprari þannig að eitt stjórnvald komi að staðfestingu skipulagstillagna í stað tveggja áður og ætti þá væntanlega að efla skilvirkni við afgreiðslu mála.

Virðulegur forseti. Nú eru liðnir rúmir 10 mánuðir frá gildistöku hinna nýju skipulagslaga sem voru hér afgreidd í sögulegri sátt í þingsal. Ég tel að framkvæmd þeirra hafi gengið mjög vel og aukin skilvirkni í stjórnsýslu hafi þegar átt sér stað. Skipulagsstofnun eru settir skýrir tímafrestir í skipulagslögum um staðfestingu skipulagstillagna. Þeim hefur verið fylgt mjög vel eftir af hálfu minnar góðu fagstofnunar í þessum efnum. Ég er sammála þeim sjónarmiðum í grunninn sem koma fram í frumvarpinu sem hér er til umræðu að afgreiðsla skipulagstillagna sé skilvirk og ég tel að vel hafi verið komið til móts við þau sjónarmið um aukna skilvirkni í nýjum skipulagslögum sem samþykkt voru árið 2010.

Það má aldrei verða svo að krafa um aukna skilvirkni komi niður á gæðum stjórnsýslunnar. Það verður alltaf að gera sömu kröfur til að ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum séu vel undirbúnar og meginreglna stjórnsýsluréttarins sé gætt, þar á meðal rannsóknarreglurnar sem hv. þm. Mörður Árnason ræddi hér í sinni ræðu.

Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er hins vegar gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti einhliða ákveðið að aðalskipulag sveitarfélagsins taki gildi ef Skipulagsstofnun afgreiðir ekki aðalskipulagstillögu innan lögformlegs frests. Sama eigi við um ráðherra ef hann hefur ekki tekið ákvörðun innan ákveðins frests sem lagt er til að verði settur ráðherra. Í frumvarpinu er því strangt til tekið lagt til að það mikilvæga hlutverk sem Skipulagsstofnun fer með og er falið samkvæmt lögum og var falið ítrekað hér með öllum greiddum atkvæðum í þingsal, þ.e. að kanna lögmæti tillagna — að þessum sjónarmiðum sé vikið til hliðar ef þannig stendur á dagatalinu að stofnunin kunni að fara fram yfir fjögurra vikna frest sem hún hefur.

Ég tel að þessi tillaga sé af þessum sökum mjög mikið áhyggjuefni þar sem réttaröryggi íbúanna er ekki tryggt með henni. Ég velti fyrir mér þegar þingmenn, sem eru, hvort sem það er tilviljun eða hvað það er, allir úr sama kjördæmi og eru þá væntanlega vel tengdir sveitarstjórnarmönnum í hinu sama kjördæmi, fara fram með tillögu sem er eðli málsins samkvæmt stefnt gegn réttaröryggi íbúa sveitarfélaganna. Það hlýtur að vera umhugsunarefni og vekur okkur kannski almennt til umhugsunar um þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar framlagningu tillögunnar. Skipulagsstofnun er, eins og hér hefur áður verið reifað, sérfræðistofnun á sviði skipulagsmála og hefur það hlutverk að skipulagstillögur séu í samræmi við lög.

Ég vil árétta í þessu sambandi, og geri nú mál mitt ekki öllu lengra að þessu sinni, að ég tel að ný skipulagslög tryggi skilvirkni og afgreiðsluhraða við meðferð skipulagstillagna jafnhliða virðingu fyrir réttaröryggi íbúanna.