140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að mér finnst ekkert að því að athuga og skoða það, að því gefnu að ráðherra er auðvitað við þessa athöfn eins og allar aðrar stjórnsýsluathafnir sínar bundinn af meginreglum stjórnsýsluréttarins og þar með talið rannsóknarreglunni og getur þess vegna ekki látið tímafresti ganga framar. En það gæti þá falið í sér að ráðherra væri gert að gera grein fyrir ástæðum þess að farið væri fram yfir frest.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi að samkvæmt gildandi lögum eru þær skipulagstillögur sem fara til ráðherra þess eðlis að Skipulagsstofnun gerir ráð fyrir því að þeim beri að fresta eða synja að hluta eða öllu leyti. Af þeim sökum má ætla að þær tillögur gætu verið flóknari að einhverju leyti en þær sem liggja beint við, ef svo má að orði komast.