140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek svo sannarlega undir að hér á það að vera þannig að allir kjörnir fulltrúar vinni fyrst og fremst fyrir hagsmuni íbúa hvort sem það er innan sveitarfélags, kjördæmis eða við sem þjóðkjörnir fulltrúar og ráðherrar allra landsmanna.

En þegar við höfum horft upp á það að sveitarstjórnir sem hafa einmitt verið að vinna á grundvelli umboðs kjósenda og jafnvel endurnýjað umboð sitt í kosningum til að vinna að ákveðnum tillögum varðandi aðalskipulag og hafa síðan þurft að þola það — ég vil taka það fram að ég er ekki að ræða hér um hæstv. ráðherra eða hv. þingmann — að sitja jafnvel undir ásökunum, ég held að í einu tilfelli hafi hreinlega verið talað um mútur, þegar þeir eru að reyna að framfylgja vilja íbúanna sem kusu þá, þá verður maður náttúrlega að bregðast við því.

Þessi tillaga er hugsuð til þess að tryggja ákveðna aukna skilvirkni í því hvernig aðalskipulög eru afgreidd á vegum Skipulagsstofnunar og á vegum ráðuneytisins. Ég tel mjög brýnt að viðkomandi nefnd fari hratt og vel í gegnum þetta, skoði kosti og galla tillögunnar sem hér liggur fyrir og afgreiði hana vonandi inn í þingsal, hugsanlega með breytingartillögu, en að við munum að minnsta kosti geta tekið afstöðu til þeirra tillagna.