140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

skipulagslög.

105. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög mikilvægt að hv. þingmenn geti staðið við það sem þeir segja í ræðustóli og gott að þingmaðurinn hefur staðfest það.

Hins vegar, eins og þingmaðurinn kom að í andsvari sínu við spurningu minni, talaði hann einmitt um að mikilvægt væri að við ynnum öll að hagsmunum íbúanna, hvort sem um er að ræða sveitarfélög, einstök kjördæmi eða landið allt. Þá er mjög brýnt að hafa í huga að sveitarstjórnir sem leggja fram aðalskipulag starfa einmitt á grundvelli lýðræðislegs umboðs frá íbúum og ekki nóg með það heldur, í einhverjum tilvikum, að minnsta kosti hvað varðar sveitarfélögin í mínu kjördæmi, hafa þau einmitt fengið endurnýjað umboð til að vinna á grundvelli hugmynda sinna um aðalskipulag. Það er nákvæmlega það sem ég benti á og vil ítreka.