140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Mér er áköf ánægja að því að standa hér og mæla fyrir tillögu til þingsályktunar frá mér og hv. þm. Róbert Marshall, um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan, þar sem við leggjum til að umhverfisráðherra verði falið að undirbúa stofnun þjóðgarðs um norðanverðan Breiðafjörð. Það eru reyndar, forseti, ákveðin vandkvæði á því hvað eigi að kalla þetta svæði. Forverar okkar í landinu höfðu annan hátt á, litu öðruvísi á landið og landakortin en við gerum, og kalla þetta ýmsum nöfnum en við kjósum að kalla þetta norðanverðan Breiðafjörð á svæðinu á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar, auðvitað nær Breiðafjörður miklu lengra.

Við leggjum til að ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011. Við tökum fram í greinargerð að ekki sé mikið um náttúrufriðlönd á Vestfjarðakjálkanum og þar er enginn þjóðgarður enn þá, en fá svæði henti jafn vel fyrir þjóðgarð, segjum við hér, og landið á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar við norðanverðan Breiðafjörð. En Breiðafjörður nýtur sjálfur sérstakrar verndar ásamt eyjum, hólmum, skerjum og fjörum þótt menn hafi saknað þess að sú vernd sé ekki ítarlegri og betri.

Það landsvæði sem við erum hér að tala um nær frá vestanverðum Þorskafirði um firðina — það er eins og að lesa ljóð að nefna nöfn þeirra — Djúpafjörð, Gufufjörð, Kollafjörð, Kvígindisfjörð, Skálmarfjörð, Vattarfjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Kjálkafjörð og Vatnsfjörð, þar sem þegar er friðland, og svo langt upp í dali og hálendi að norðan sem hæfa þykir.

Um er að ræða suðurhluta hinna gömlu Gufudalssveitar og Múlasveitar, nú í Reykhólahreppi, sem nær yfir alla hina fornu Austur-Barðastrandarsýslu, og austasta hluta Barðastrandarhrepps gamla í vestursýslunni, sem nú telst vera í Vesturbyggð.

Við lýsum í greinargerðinni, sem ég tel óþarft að lesa hér orðrétt, hún liggur fyrir í þingtíðindum og á þingskjölum, hvernig þjóðgarðurinn yrði í sveit settur. Við lýsum líka sérstæðu náttúrufari á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar, og indælu, og fjölmörgum kostum sem þarna er að finna til náttúruskoðunar og útivistar. Þó að ekki sé saga þessa svæðis sögð hér fer ekki hjá því að þegar þarna er komið minnist menn Jóns Thoroddsens og horfi úr þjóðgarðinum, að minnsta kosti eins og hægt er, til æskustöðva hans og fari með í huga sér kvæðið góða um hlíðina mína fríðu, hjalla meður græna, þar sem blágresið blíða og berjalautir vænar verða fyrir sjónum skáldsins.

Ég ætla að lesa eftirfarandi kafla úr greinargerðinni af því að hann skiptir máli í samhenginu, með leyfi forseta:

„Þjóðgarður í fjörðunum við Breiðafjörð norðanverðan eykur áhuga á ýmsum friðlöndum og náttúruundrum í næsta nágrenni. Þar er helst að nefna Breiðafjarðareyjar og fuglasvæði í Borgarlandi og við Reykhóla, vestur af þjóðgarðinum Látrabjarg og Rauðasand, og síðan syðsta hluta hinna eiginlegu Vestfjarða, ekki síst Arnarfjörð, þar sem meðal annars stendur yfir uppbygging á Hrafnseyri. Að sjálfsögðu tengist þjóðgarðurinn síðan sívaxandi ferðasvæði í Dölum og um allt Snæfellsnes.“ — En yst á því er að finna eina þjóðgarðinn á þessu svæði öllu, undir Jökli.

„Núverandi atvinnurekstur á svæðinu er einkum búrekstur á um tug býla, og getur allur haldið áfram við stofnun þjóðgarðs með sérstökum samningum við bændur. Hefðbundin nýting lands og sjávar eykur gildi þjóðgarðsins fyrir ferðafólk, og þjóðgarðsstofnun gæti styrkt þar hefðbundinn búrekstur sem ekki síst byggist á hlunnindabúskap, fuglatekju, æðarrækt og sjósókn. Þjóðgarði fylgir einnig atvinnuuppbygging til framtíðar. Þar þarf starfsfólk og þjónustu við ferðamenn í þjónustu- og fræðslumiðstöðvum. Núverandi verslunarrekstur eflist, svo sem í Bjarkalundi, Reykhólum, Flókalundi og á Brjánslæk. Einnig er auðséð að byggðin í Flatey mundi njóta góðs af og á Patreksfirði ykjust komur ferðafólks að sér sækja þjónustu.“

Það þarf ekki að dylja þess að þessi þjóðgarðshugmynd sprettur af umræðunni og átökunum um vegalagningu á þessu svæði og þá einkum deilunni um það hvort Teigsskógi sé fórnandi til þess að lagður verði vegur sem menn geti komist hraðar um en ella og þá aðra kosti sem þar hafa verið nefndir. Tillagan er þó ekki sett fram sem neins konar ögrun, af því að sumir hafa látið það í veðri vaka, við samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum og alls ekki meint þannig að íbúum í Tálknafirði, á Patreksfirði og á Bíldudal, og þar í nágrenni, sé meinuð hröð för eins og hægt er suður um eða austur um.

Ef þjóðgarður yrði stofnaður yrði hins vegar að gæta mjög vel að vegalagningu um hann og virða náttúruna til hins ýtrasta. Í greinargerð með tillögunni leggja flutningsmenn áherslu á að þetta verði gert og ræða sérstaklega um göng undir Hjallaháls sem ég tel að sé besta leiðin til frambúðar og væri frumhlaup að ráðast nú í aðrar framkvæmdir sem spilli henni. Ég skal beita mér fyrir því að sú leið sé sett á samgönguáætlun, hygg að hún verði það þegar sú áætlun kemur, og sé þar sett eins framarlega og hægt er. Að öðrum vegabótum þarf auðvitað að huga á þessu svæði.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um vegina og læt hér lokið þessari framsöguræðu. Ég bendi á greinargerð sem hér liggur fyrir og vænti þess að tillagan hljóti góða afgreiðslu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og verði samþykkt sem ályktun Alþingis að þeirri umfjöllun lokinni.