140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan, sem ég er einn af tveimur flutningsmönnum á ásamt hv. þm. Merði Árnasyni. Mig langar í stuttu máli að gera grein fyrir aðkomu minni að þessu máli og þessari tilraun tveggja þingmanna úr öðrum kjördæmum til þess að koma með uppbyggilegar tillögur til styrktar svæði sem á undir högg að sækja með tilliti til bæði atvinnu og samgangna.

Við erum mörg hér sem aðhyllumst þá breytingu á kjördæmaskipan landsins að það eigi að vera eitt kjördæmi. Í samgöngumálum hafa menn vissulega starfað þannig að það hefur ekki eingöngu verið bundið við þau kjördæmi sem menn koma úr þegar þeir fjalla um samgöngubætur. Þannig er þetta mál til komið. Það er verið að benda á ákveðna leið í samgöngumálum sem er enn í fullu gildi þrátt fyrir að sú hugmynd að fara með veg í gegnum Teigsskóg hafi fengið falleinkunn. Hún hefur ekki bara gert það fyrir dómstólum landsins, heldur eins og fram kemur í greinargerð hafa fræðimenn og stofnanir sem láta sér annt um umhverfismál verið mjög sammála um verndargildi Teigsskógar og fjarðanna sem átti að þvera, Djúpafjarðar og Gufufjarðar, þar á meðal er Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Umhverfis- og náttúruverndarfélög voru einnig sammála um að vernda þetta svæði, svo sem Landvernd, Fuglaverndarfélag Íslands, Náttúruvaktin og Náttúruverndarsamtök Íslands og Græna netið. Ég er þeirrar skoðunar að Teigsskógi eigi ekki að fórna undir veg. Það er frumástæða þess að ég er á þessu máli.

Enn er inni í myndinni að leggja göng undir Hjallaháls. Sú hugmynd er í fullu gildi eins og fram kemur í greinargerð með þessari tillögu. Þau mundu losa vegfarendur við verulegan farartálma á vetrum en kostnaðurinn yrði minni en við B-leiðina. Ég held að þetta sé lausn sem gæti leyst þann hnút sem kominn er á þessi mál og hefur verið allt of lengi.

Ég hef líka horft til Vatnajökulsþjóðgarðs, hversu jákvæð áhrif sú hugmynd hefur haft, og einnig til Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Þetta er mjög góð leið til þess að stuðla að uppbyggingu og á sama tíma verndun á svæðum sem eru sannarlega eftirsóknarverð fyrir ferðamenn og Íslendinga alla.

Ég held að þessi hugmynd verðskuldi að hún sé rædd á málefnalegum grunni hér í þinginu, bæði hugmyndin um þjóðgarðinn og hvernig samspili hans við samgönguúrbætur sem enginn deilir um að eru brýnar á þessu svæði verði best háttað.