140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um góðan hug flutningsmanna þessarar tillögu og vissulega er fagurt við Breiðafjörð og Barðastrandarsýslur, þar á ég mörg spor og þekki þar hvern krók og kima. Það er erfitt að ræða þetta mál og leggja það upp á þeirri forsendu að það sé þarft að koma uppbyggilega að málefnum þessa svæðis án þess að taka samgönguþáttinn til greina í þessari umræðu. Það er nefnilega ekki hægt að skilja samgöngumálin frá umræðunni. Ferðamannastraumur og uppbygging ferðaþjónustu á svæðinu sem verið er að ræða í samhengi við stofnun þjóðgarðs verður lítils virði ef samgöngurnar eru ekki greiðar. Ef ferðamenn komast ekki greiðlega leiðar sinnar þjónar samgöngukerfið ekki þeirri uppbyggingu sem verið er að ræða hér um í sama orði og stofnun þjóðgarðs.

Ég sé fyrir mér að í framtíðinni gæti mjög vel farið á því að þetta svæði yrði þjóðgarður. Það hefur allt til þess að bera; einstaka náttúrufegurð og náttúrufyrirbæri. Ég tel hins vegar að tímasetning þessarar tillögu sé ekki góð. Ég get ekki orða bundist að láta þá skoðun mína í ljósi. Samgöngumál þarna eru í óleysanlegum hnút að því er virðist, eins og sakir standa, og ég tel að skylda okkar liggi fyrst og fremst við íbúa svæðisins og uppbyggingu atvinnulífs þar. Við þurfum að leysa það mál og þann hnút áður en við leyfum okkur þann munað að stíga næsta skref sem væri stofnun þjóðgarðs, að óleystum öðrum forsendum eins og samgöngum.