140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka snöfurmannlegt andsvar við ræðu minni.

Ég tek undir þau sjónarmið í grunninn, og tel það vera algjört lykilatriði, að þegar þjóðgarður er annars vegar sé tvennt tryggt að því er varðar samgöngur. Í fyrsta lagi aðgengi að þjóðgarðinum, samgöngur til hans og frá, og hins vegar samgöngur innan þjóðgarðsins. Hvort tveggja þarf að liggja fyrir vegna þess, eins og ég kom að í máli mínu áðan, snýst þjóðgarður um þetta samspil manns og náttúru — greiðan aðgang mannsins að náttúrunni og upplýsingum um hana. Það er það sem er svo heillandi við þjóðgarðahugmyndina.

Ég ætla hins vegar, virðulegur forseti, að láta duga þau orð sem ég hafði hér uppi áðan varðandi legu þessa vegar. Ég er sammála því að höggva þarf á þennan hnút. Ég tel að það standi byggð þarna fyrir þrifum að ekki hefur tekist að gera það undanfarin ár. Eins og ég orðaði það hér áðan þá hefur þessi störukeppni, sem hefur gengið út á það að málið snerist um veg um Teigsskóg eða ekkert, sett málið í hnút árum saman; og er mjög alvarleg þegar til lengri tíma er litið og hefur verið þessum byggðum þarna mikill fjötur um fót.

Frekar en nefna hér göng, hvar þau ættu hugsanlega að liggja, vil ég einfaldlega segja að ég vil leggja mitt af mörkum til þess að þessi hnútur verði leystur. Þó tel ég algjörlega liggja fyrir að þessi vegur verði ekki lagður um Teigsskóg.