140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég kem hér upp að þessu sinni til að þakka stuttlega fyrir þessa umræðu sem ég held að hafi venju fremur beint athyglinni að kostum þessa svæðis og kannski Breiðafjarðar og Vestfjarða allra sem útivistar- og ferðamannasvæðis og náttúruparadísar og að þeim möguleikum sem þar liggja fyrir mannlíf og atvinnulíf á svæðinu.

Ég geri athugasemd við það í ágætu innleggi hv. 1. varaformanns umhverfis- og samgöngunefndar að stilla málunum upp á Vestfjörðum eða við norðanverðan Breiðafjörð eða hvar sem er annars staðar þannig að um sé að ræða annars vegar mannlíf og atvinnulíf og hins vegar umhverfissjónarmið. Þetta getur ekki annað en farið saman. Það er einmitt kúnst okkar, það er verkefni okkar sem hér störfum og í stjórnkerfinu, í atvinnulífinu og alls staðar, að láta þetta fara saman svo vel sé þannig að umhverfissjónarmið, sem eru sjónarmið næstu kynslóða og sjónarmið velsældar og lífshamingju okkar, skerðist ekki af ákefð og kappi án forsjár í atvinnulífi.

Ég vil segja það vegna athugasemda um tímasetningu að það má auðvitað alltaf deila um tímasetningar og kannski er engin endanleg lausn á vandamálinu um tímasetningar. Það mál sem hér er nú mælt fyrir kom fyrst fram á fyrra þingi en kom fram of seint til að það næðist á dagskrá og fór því ekki til nefndar. Nú hefur það hins vegar gengið í annað skipti og ég á von á því að við í hinni háu umhverfis- og samgöngunefnd tökum þetta mál og ræðum það og fáum um það umsagnir eins og fara gerir.

Í tilefni af athugasemdum um orðið „sperring“ sem ég hafði hér í ræðu minni í glannaskap og gáleysi, þá er það tengt því orði sem hæstv. umhverfisráðherra notaði og var störukeppni. Það er nú svo að deilurnar um samgöngur á þessu svæði hafa ekki bætt samgöngurnar. Þegar ég tala um sperring — það er sjálfsagt að spyrja eftir því hvað ég meina með því — þá er það t.d. þingmál Einars K. Guðfinnssonar, hv. þingmanns af þessu svæði, um að afnema umhverfislöggjöfina í heild sinni til að koma vegi í gegnum Þorskafjörð. Ég kalla það sperring og ég kalla það ábyrgðarleysi. Ég get kallað það nokkrum nöfnum í viðbót ef óskað er eftir, en ég nefni þetta dæmi til þess að skýra þetta orðfæri.

Ég vil svo þakka almennt, líka þeim sem ég hef hér gert athugasemd við eða svarað athugasemdum frá, fyrir ágæta umræðu um þetta, kannski sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra fyrir ítarlega skoðun á málinu og skilmerkilega umfjöllun og jákvæða um það og tek undir allt sem þar kom fram. Það er sem betur fer mikið að gerast á þessu svæði og annars staðar með hvítbókinni og þeim áætlunum sem nú eru loksins eitthvað við það að komast í framkvæmd í náttúruvernd og friðun. Kannski lifum við það sem hér sitjum og stöndum nú að suðurströnd Vestfjarða eða norðanverður Breiðafjörður verði allur samfellt friðland frá Látrabjargi í Gilsfjarðarbotn. Það væri ákaflega ánægjulegt og þyrfti að gera þá þannig að mannlíf og atvinnulíf einmitt efldist við það á svæðinu í samræmi við fortíð þess og landshætti.

Ég vil að lokum þakka samverkamanni okkar Róberts, Einari Þorleifssyni, fyrir aðstoð við gerð þessarar þingsályktunartillögu. Það er stundum þannig að það gleymist að þakka þeim sem maður leitar til í þessu efni og eiga stundum jafnvel meira í málinu eða lokabúningi þess en maður sjálfur. Ég geri það hér með og færi honum mitt þakklæti fyrir.