140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[17:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar við skilgreinum málþóf sem innihaldslausar ræður eða endurtekningar vona ég að ég hafi ekki fallið í þann pytt í gegnum tíðina. Jafnvel í Icesave-umræðunni þar sem ég ræddi mjög ítarlega var sem betur fer það mikið efni tengt málinu, þvílík ógrynni af efni að ég komst ekki í þrot með það að hafa ekki nóg efni nema kannski undir lokin í síðustu tveim, þrem ræðunum kl. 5 að morgni þegar ég reyndi að stöðva þessi ósköp, en tókst ekki. Það var forseti Íslands sem stöðvaði það. En það tókst þó að safna undirskriftalistum, það tókst að tefja málið það lengi að þessar miklu undirskriftir náðust.

Varðandi það að hér sé slæm umræðuhefð, það er rétt en ég sé ekki að þetta frumvarp breyti því. Þetta breytir því ekki, dónaskapur í ræðustól og annað slíkt breytist ekki við þetta. Það þarf þá styrkari stjórn þingsins til þess.

Ég vil endilega að menn komi þá með einhverja aðra lausn, t.d. hvað gerist þegar hæstv. ráðherrar svara ekki, mæta ekki til umræðu? Forsætisráðherra var hérna með frumvarp um Stjórnarráðið. Maður hefði haldið að hún mundi mæta við umræðuna og svara. Hún sat reyndar hér við umræðuna en tók ekki til máls og svaraði ekki. Hvað á þá að gera? Ég hamraði á því aftur og aftur og aftur að ég vildi fá svar. Það var það eina. Að ég fengi svar um það að hún ætlaði ekki að beita þessu valdi á einræðislegan hátt sem hefði haft ákveðið gildi við framkvæmd laganna. Og þingsályktunartillagan sem kom er einskis virði, það er bara ein umræða. Hún stöðvar málið nánast ekki neitt.