140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hin svokallaða sáttatillaga sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hafði forgöngu um hér hafði auðvitað gríðarlega mikið gildi. Þá átti þingið að ákveða með atkvæðagreiðslu hvaða málaflokkar tilheyrðu hvaða ráðuneyti, þingið átti að gera það en ekki Stjórnarráðið. Auðvitað hafði það alveg gríðarlegt gildi. Það var einmitt um það sem þessi deila öll stóð hérna og þetta málþóf. En það var svo sannarlega málþóf í þeirri umræðu og það sáu allir sem fylgdust með umræðunni. Það var löngu búið að koma öllum sjónarmiðum á framfæri sem menn ætluðu sér að koma á framfæri. (PHB: Engin svör.) En ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað mjög slæmt ef hæstv. ráðherrar svara ekki. Þá hefur það voðalega lítið gildi að hafa þá hér yfirleitt ef þeir eru ekki hér til að svara spurningum og aðstoða við að útskýra mál. Auðvitað eiga þeir að svara.

Það er líka eitt sem ég vil taka undir með hv. þingmanni, það er þetta með dónaskapinn og þann nýja stíl — ja, nýja, það hefur svo sem alltaf verið einhver dónaskapur hér úr pontu, en hann hefur verið ansi víðtækur upp á síðkastið. Það er ekki víst að hann breytist svo mikið þó að umræðutíminn verði takmarkaðri en ég tel að annar svipur verði á umræðuhefðinni. Ef menn hafa upphaf og endi umræðunnar og þingflokkarnir fá ákveðinn tíma tel ég að þingmenn fari að vanda sig mun meira við röksemdafærsluna, þeir nýti tímann í að koma rökum á framfæri, jákvæðum og neikvæðum o.s.frv. Í dag er þetta þannig, af því að menn hafa svo mikinn tíma og svo mikið svigrúm, að þeir geta komið upp í pontu og verið að „steypa“ eins og menn segja á góðu máli, að tala um nánast ekki neitt.

Í málþófinu á septemberþinginu, eins og ég fór yfir áðan, var dæmi um það að þingmaður fór orðrétt með ræðu sína frá upphafi til enda tvisvar sinnum hérna úr pontu.