140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

106. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bókstaflega brann í skinninu að taka þátt í þeim áhugaverðu umræðum sem fram fóru hér um málið á undan þessu en náði að sitja á mér, enda tifar klukkan okkar og fer að líða að kvöldverði hjá fjölskyldum landsins.

Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Ásamt þeirri sem hér stendur eru meðflutningsmenn þau Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Róbert Marshall, Atli Gíslason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Skúli Helgason og Þór Saari. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að vinna að því, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, að stofna Hofsjökulsþjóðgarð sem hafi innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi svæði. Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins fyrir lok vorþings 2012 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðsins árið 2013.“

Í greinargerð er sagt frá því að þeirri hugmynd hafi oft verið hreyft á síðari árum að vernda beri náttúru miðhálendis Íslands með því að lýsa það þjóðgarð í heild sinni eða að stórum hluta. Um miðhálendið fór fram mikil umræða á tíunda áratug liðinnar aldar og tengdist hún meðal annars vinnu að skipulagi á svæðinu. Á árinu 1998 flutti Hjörleifur Guttormsson þingsályktunartillögu sem kvað á um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu sem hefðu innan sinna marka helstu jökla miðhálendisins og aðliggjandi landsvæði, þ.e. Hofsjökuls-, Langjökuls-, Mýrdalsjökuls- og Vatnajökulsþjóðgarða. Tillagan var endurflutt á 123. löggjafarþingi og leiddi til ályktunar Alþingis þann 10. mars 1999 um Vatnajökulsþjóðgarð. Með henni var umhverfisráðherra falið að kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Eftir umfangsmikla og vandaða vinnu tóku gildi 1. maí 2007 lög nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð, og var þjóðgarðurinn stofnaður formlega með reglugerð vorið 2008.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu stórt og mikilvægt skref þetta var eftir svo margra ára vinnu. En nú er brýnt að halda verkinu áfram og sjá verða að veruleika Hofsjökulsþjóðgarð sem hefði innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi landsvæði sem sum hver eru þegar friðlýst eða á náttúruminjaskrá. Þar ber meðal annars að nefna Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Guðlaugstungur og Orravatnsrústir, en við bætist önnur aðliggjandi svæði eftir því sem samkomulag tekst um þannig að úr verði sem stærst samfelld náttúrufarsleg heild. Í því sambandi verði meðal annars horft til Austari-Jökulsár og Vestari-Jökulsár sem hluta af þjóðgarðinum. Við vinnu að málinu verði ekki síst tekið mið af þeim svæðum umhverfis jökulinn sem þegar eru ákvörðuð sem þjóðlenda.

Hofsjökull er eins og allir vita þriðji stærsti jökull landsins, tæpir 1 þús. ferkílómetrar að flatarmáli, og í honum er risastór ísfyllt askja. Tillagan felur í sér að Hofsjökull myndi eins konar kjarna væntanlegs þjóðgarðs sem tengist náttúruverndarsvæðum og öðrum verndarsvæðum sem yrðu hluti hans. Brýnt er að fólk á þeim svæðum sem liggja að þessum hluta miðhálendisins líti á stofnun þjóðgarðsins sem jákvæða aðgerð, komi að undirbúningi hennar og eigi hlutdeild í ferlinu en að öðru leyti er hér um mál að ræða sem snertir þjóðina í heild. Leggja ber áherslu á nána samvinnu stjórnvalda við heimafólk, hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa við undirbúning málsins. Einnig er nauðsynlegt að tryggja samfellu og samvinnu um stjórnun og eftirlit með þjóðgarðinum sem hluta af náttúruverndarsvæðum miðhálendisins.

Miðhálendi Íslands er einstakt með jöklum og stórum svæðum, sem þeir hafa haft mótandi áhrif á, svo og auðvitað jökulánum sem frá þeim renna. Samspil jarðelds og íss er stórbrotið og uppspretta gífurlegra náttúruhamfara sem skollið geta á þá minnst varir. Þessar fágætu aðstæður auka mjög á aðdráttarafl landsins og miðhálendisins sérstaklega. Við þetta bætast auðnir og ósnortin víðerni sem flest er að finna í grennd jöklanna. Þessa gersemi ber Íslendingum að varðveita og vernda, bæði sjálfra sín vegna sem og í alþjóðaþágu. Það verður best gert með hyggilegu verndarskipulagi.

Tilkoma Hofsjökulsþjóðgarðs yrði mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi. Hofsjökli og umhverfi hans yrði lyft á verðskuldaðan stall og aðdráttarafl og gildi óbyggðanna yrði tryggt. Fyrir þjóð sem vill vera framarlega í umhverfismálum samhliða því að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu til framtíðar er mikið í húfi að vernda náttúru landsins, ekki síst jarðsögulegar minjar, víðerni, landslag og jökla hálendisins. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum enda senn liðinn hálfur annar áratugur frá því að hugmyndin að stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs kom fyrst fram.

Í lokin vil ég bara nefna, herra forseti, hversu ánægjulegt það er hversu margir þingmenn eru á þessu máli úr ólíkum áttum. Hér var verið að tala um þingið áðan og nýja þingmenn og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að fyrir fáeinum árum hefði verið nánast óhugsandi að ná svo mörgum þingmönnum á slíkt mál. Enn fleiri hafa lýst yfir stuðningi við það. Von mín er að græn hugsun í þessum efnum nái áfram að byggjast upp hér innan veggja. Að þeim orðum sögðum legg ég til að þessu máli verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.