140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

106. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Bara örstutt í lokin, mig langaði að þakka hæstv. umhverfisráðherra kærlega fyrir hennar góðu orð og góða innlegg og fyrir það að hafa beðið hér í dag eftir að þetta mál kæmist á dagskrá. Það er mjög spennandi, leyfi ég mér að segja, að vera þingmaður á þingi og verða vitni að þeim góðu breytingum sem eru að verða í umhverfisráðuneytinu undir stjórn hæstv. ráðherra og fá að fylgjast með og taka þátt í þeim málum sem þaðan koma hingað inn.

Ég vil hnykkja á þeim atriðum sem hæstv. ráðherra fór yfir. Út af því að svæðið er mikið til þjóðlendur, þ.e. lönd sem eru úrskurðuð í eigu þjóðarinnar, og sátt og samstarf um að það eigi að vernda finnst manni þetta vera verkefni sem við ættum að geta leyst farsællega. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á flækir það auðvitað málin þegar fleiri aðilar koma að þeim, einstaka landeigendur og fleiri. Það er einfaldlega von mín að málið fái góða umfjöllun og verði vel unnið í nefnd og að við getum síðan öll haldið sameiginlega áfram og leitt það farsællega til lykta.