140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Þjóðhagsstofa.

76. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er framsögumaður að frumvarpi til laga um Þjóðhagsstofu sem þingflokkur framsóknarmanna flytur.

Áður en ég fer í efnisgreinar frumvarpsins vildi ég nefna í framhaldi af þeirri umræðu sem varð um breytingar á ræðutíma þingmanna að þar voru ákveðnir hlutir sem maður hefði haft áhuga á að ræða en ég held að ég geti alveg tengt þá við Þjóðhagsstofuna.

Við þingsetninguna núna bauð Siðmennt þingmönnum að hlusta á erindi frá dr. Huldu Þórisdóttur þar sem hún fjallaði sérstaklega um staðfestingarskekkjuna. Staðfestingarskekkjan er þegar við sem einstaklingar eða hópar sem höfum tiltekin markmið — það er sem sagt lýsing á stjórnmálaflokkum — hneigjumst til að ofmeta vísbendingar sem styðja þau markmið sem við höfum en vanmeta þær vísbendingar sem styðja þau ekki. Mér finnst þetta einkar áhugavert þegar maður veltir fyrir sér því hvernig við nálgumst til dæmis ákvarðanatöku í þinginu. Hulda benti líka á að ef eitthvað er væri vel gefið fólk enn þá verra í staðfestingarskekkjunni en illa gefið fólk vegna þess að vel gefið fólk væri nefnilega enn þá betra í að draga fram þær vísbendingar — þær eru þarna einhvers staðar á bak við — sem styðja einmitt markmiðin sem það sjálft hefur.

Ég fór að skoða þetta efni og eitt af því sem ég las var grein eftir Huldu en hún skrifaði einn áhugaverðasta hluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, mjög skemmtilega og létta, auðlesna grein þar sem hún nálgaðist hrunið út frá kenningum sálfræðinnar. Þetta var eitt af því sem hún talaði um og ýmislegt annað. Þar var að finna ábendingar um að innan stjórnmálastéttarinnar, svo maður noti það orð, eða hjá stjórnmálamönnum væri ákveðin andúð á sérfræðiþekkingu eða jafnvel hræðsla við það sem sérfræðingar hafa fram að færa, við viljum ekki hlusta á þá vegna þess að þeir koma kannski fram með upplýsingar sem staðfesta ekki staðfestingarskekkjuna hjá okkur.

Ég fór líka að velta fyrir mér í framhaldi af umræðunni almennt um vinnubrögð í þinginu, hvernig við sem stjórnmálamenn megum nánast aldrei skipta um skoðun. Þegar stjórnmálamenn skipta um skoðun virðist upplifun fólks vera sú að það viti ekki almennilega hvar það hefur okkur, við verðum minna traustvekjandi sem stjórnmálamenn og þess vegna sé jafnvel betra að við höngum á skoðuninni þrátt fyrir vísbendingar um að kannski sé skoðunin ekki rétt. Hulda hafði einmitt sálfræðilega skýringu á þessu þó að hún næði kannski ekki alveg að fara í gegnum hana en þetta tengdist ákveðnu óöryggi sem myndast hjá fólki þegar einhver sem maður telur sig vita hvar maður hefur reynist síðan vera allt annar. Það gerir að verkum að fólk treystir þá ekki viðkomandi.

Ég vil gjarnan trúa því að við getum unnið á þessu, kannski ekki staðfestingarskekkjunni, en við eigum svo sannarlega að geta unnið á vantraustinu á sérfræðiþekkingu og kannski eigum við raunar að upphefja sérfræðiþekkinguna og segja: Það er mikilvægt þegar við þingmenn tökum ákvarðanir sem varða velferð þjóðarinnar, en það gerum við nánast daglega, að við höfum góðar upplýsingar til að geta byggt ákvarðanir okkar á, hvort sem við erum með eða á móti.

Þess vegna tek ég hér upp gott mál frá Vinstri grænum. Þeir töluðu að vísu um að setja ætti á stofn Þjóðhagsstofnun en þar sem ég vildi ekki vera alveg eins ákvað ég að kalla þetta Þjóðhagsstofu en að efninu til er þetta frumvarp mjög líkt því frumvarpi sem þingflokkur Vinstri grænna flutti á sínum tíma enda var það mjög gott mál. Ég hef saknað þess mjög að eftir að Vinstri grænir komust í ríkisstjórn skuli þeir ekki hafa fylgt þessu máli eftir.

Meginbreytingin frá því sem var hjá Vinstri grænum er að í staðinn fyrir að Þjóðhagsstofnun sé sjálfstæð stofnun undir framkvæmdarvaldinu verður þetta stofnun sem heyrir undir Alþingi og hennar hlutverk er fyrst og fremst að vera Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum. Hlutverk hennar yrði þá sambærilegt við t.d. umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hennar hlutverk yrði að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og jafnframt gætu sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins, fræðimenn, fag- og fræðistofnanir og aðrir leitað til hennar ef þörf krefur.

Ég var mjög stolt og ánægð með að við í þingmannanefndinni lögðum til og ályktuðum að setja ætti á stofn Þjóðhagsstofu sem ætti að heyra undir Alþingi og mundi þannig styðja sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera því betur kleift að taka ákvarðanir sem varða efnahagsmál. Við sáum náttúrlega svo vel í hruninu hvað allar ákvarðanir um efnahagsmál skipta gífurlega miklu. Ef við eigum ekki pening er afskaplega fátt sem við getum gert af öllum þeim góðu málum sem hver og einn þingmaður mundi gjarnan vilja vinna að hér á Alþingi.

Lykilatriðið er að Þjóðhagsstofa yrði engum háð í störfum sínum. Til að tryggja þetta óhæði yrði forstöðumaður ráðinn til sex ára í senn og ef við ætlum okkur að lengja kjörtímabil Alþingis mundi ég leggja til að við mundum í framhaldinu lengja ráðningartímabil þjóðhagsstofustjóra. Launakjörin yrðu ákveðin af kjararáði líkt og með alþingismenn og ef ástæða væri til að reyna að víkja forstöðumanni Þjóðhagsstofu úr starfi mundi þurfa aukinn meiri hluta Alþingis fyrir þeirri ákvörðun.

Verkefni Þjóðhagsstofu yrðu:

1. Að færa þjóðhagsreikninga.

2. Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur, þar á meðal um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuvega, fjármál hins opinbera og aðra mælikvarða um hagsæld þjóðarbúskaparins, þar með talin lífsgæði og umhverfi. — Þetta kemur örugglega beint frá Vinstri grænum og þar vorum við mjög sammála. Auk þess skal stofnunin koma fyrir almenningssjónir, eftir því sem kostur er, niðurstöðum athugana sinna á einstökum þáttum efnahagsmála og þeirra rannsókna sem hún að eigin frumkvæði kýs að ráðast í.

4. Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir Alþingi og síðast en ekki síst:

5. Að láta alþingismönnum, nefndum Alþingis og þingflokkum í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og vera Alþingi sem fjárveitingar- og fjárstjórnarvaldi almennt til ráðuneytis.

Þessir síðustu tveir liðir, 4. og 5. liður, eru sérstaklega mikilvægir. Ef við rifjum upp Icesave-málið mikla olli það t.d. margítrekað miklum deilum innan þingsins vegna þess að við vorum að velta fyrir okkur hver ætti að vinna fyrir okkur hagfræðilegar úttektir á ýmsum spurningum sem vöknuðu við vinnslu málsins. Það er náttúrlega langeðlilegast að það geri sérfræðingar sem starfa fyrir Alþingi og vinna að hagsmunum þjóðarinnar líkt og við, við gætum leitað til þeirra og þeir gætu gert slíkar hagfræðilegar athuganir.

Það er líka mjög brýnt, og ég veit það frá fulltrúum þingflokks framsóknarmanna í nefndum sem fara með efnahagsmál, að þingmenn fái þá ráðgjöf og ráðleggingar sem þeir þurfa þegar t.d. er verið að vega og meta áhrif ýmissa skattbreytinga, taka ákvarðanir varðandi peningamálastefnuna og óteljandi önnur flókin viðfangsefni sem við sem þingmenn ættum ekki að vera sérfræðingar í heldur ættum við að geta leitað eftir þeirri sérfræðiþekkingu. Eins og komið er inn á í þessum efnisgreinum á Þjóðhagsstofa að geta aflað sér nauðsynlegra gagna. Ríkissjóður greiðir að sjálfsögðu kostnaðinn og þagnarskylda ríkir um þær upplýsingar sem Þjóðhagsstofa safnar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila, þó að þær yrðu notaðar til að sinna verkefnum stofnunarinnar. Forsætisnefnd yrði síðan falið að setja nánari reglur um starfsemi Þjóðhagsstofu og þá að undangengnu samráði við þjóðhagsstofustjóra og fulltrúa starfsmanna stofnunarinnar.

Þetta mál er lagt fram í annað skipti. Það var fyrst lagt fram á 139. löggjafarþingi en fékkst þá ekki rætt. Það er von mín að málið fáist núna rætt í nefnd og komi aftur í þingsal. Þetta er eitt af mörgu sem við stefndum að því að gera í framhaldi af ályktun þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við þurfum að mínu mati að hafa listann sem þar kom fram ofarlega á borðum þingmanna þannig að við getum hakað reglulega við til merkis um að við séum í raun og veru að uppfylla það sem 63 þingmenn ályktuðu um. Það er eina ályktunin sem ég hef séð sem allir þingmenn hafa tekið undir og verið viðstaddir atkvæðagreiðslu.

Að lokinni umræðunni mundi ég vilja að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tæki við málinu og ynni það jafn vel og önnur mál sem þangað fara.