140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Þjóðhagsstofa.

76. mál
[19:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem borið er fram af þingflokki Framsóknarflokksins. Fram kemur í greinargerð að frá árinu 1974–2002 var starfandi hér Þjóðhagsstofnun sem átti, með leyfi forseta: „að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum“. Ég tel að það hafi verið mikil ógæfa þegar sú stofnun, sem var mjög merk, var lögð niður. Ég held að það hafi verið þeim sem stjórnuðu almennt til góðs að hafa ráðgjöf hennar og álit þó að menn væru ekki alltaf sammála öllu sem þar kom fram. Það gerði kannski gæfumuninn í endann.

Í greinargerðinni kemur líka fram:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram nokkuð hörð gagnrýni á hagstjórn síðustu ára og var meðal annars talað um misræmi í hagstjórn.“

Ég held að þetta hafi verið svolítið afdrifaríkara en menn telja. Hér er almennt talað um að hrunið hafi orðið af völdum bankanna og það má vissulega til sanns vegar færa, en ég held að ef hagstjórn hefði verið hér betri og betur hefði verið fylgst með efnahagsmálum en gert var hefði kannski ekki farið eins illa og fór. Ég tel raunar að það mikla misræmi sem var í hagstjórn og þá sérstaklega á milli annars vegar stjórnar ríkisfjármála og hins vegar peningamálastefnu sem var á ábyrgð Seðlabankans, hafi verið mjög afdrifaríkt fyrir efnahag þjóðarinnar.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir að Þjóðhagsstofa verði sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis. Ég mundi gjarnan vilja heyra mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að hún heyri undir Alþingi eða hvort hún eigi að heyra undir forsætisráðherra eins og gamla Þjóðhagsstofnun og sé ríkisstjórn og Alþingi til ráðgjafar. Ég tel nefnilega að ríkisstjórn þurfi, ekki síður en Alþingi, á sérfræðistofnun af þessu tagi að halda og tek mjög undir það sem fram kom hjá frummælanda í málinu, að það er mjög nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn, hvort heldur þeir sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi, að hlusta á sérfræðinga. Það á ekki bara við í efnahagsmálum, það á við í öllum málum, en ég held að okkur sé mörgum mjög gjarnt að tala frekar en hlusta og kannski ættum við að hlusta meira og tala minna. Það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að læra að hlusta á sérfræðinga en líka á hvert annað og á fólk almennt.

Ég fagna framkomu þessa frumvarps og hlakka til að fjalla um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.