140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Þjóðhagsstofa.

76. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formanni eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, fyrir ræðuna. (Gripið fram í: Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.) Já. Eins og menn kannski vita höfum við verið að breyta nefndaskipan og þingmenn eru enn að læra nöfnin, eins og ég sem velti fyrir mér fyrr í dag, talandi um að tala, af hverju það væri umhverfis- og samgöngunefnd en ekki samgöngu- og umhverfisnefnd og af hverju sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti en ekki landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Það er hins vegar annað mál.

Það er tvennt sem ég vildi koma inn á. Ég tel mjög brýnt að Þjóðhagsstofa sé sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis. Það hefur aftur og aftur komið í ljós að framkvæmdarvaldið virðist eiga mjög auðvelt með að fá fjármagn til að kaupa ýmsa sérfræðiþjónustu á meðan Alþingi á mun erfiðara með það. Til dæmis í umræðunni um Stjórnarráðið, um breytingar á því, þá virtist eins og þingmönnum fyndist mun eðlilegra að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra en að taka inn varamenn fyrir þingmenn þó að þar væri um mjög sambærilegan kostnað og sambærilegan fjölda að ræða. Ég tel mjög brýnt að stofnunin sé á vegum Alþingis og geti tryggt það, og þó að að sjálfsögðu mætti vera meiri sérfræðiþekking hjá framkvæmdarvaldinu hafa menn þar samt haft mun betri aðgang að sérfræðiaðstoð en nokkurn tíma við þingmenn og þá sérstaklega stjórnarandstöðuþingmenn.

Síðan er enn einn punktur sem ég mundi vilja bæta við. Það er ábending sem kom frá sérfræðingum á ráðstefnunni í Hörpu sem haldin var á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabankans og Stjórnarráðsins. Þeir lögðu áherslu á að við ættum að vera óhrædd við að ná okkur í erlenda sérfræðiþekkingu. Ég held að það sé eitt af því sem við ættum líka að hafa í huga þegar við verðum komin með hagfræðinga og þeir eru farnir að vinna með tölur að tungumálið ætti ekki að koma í veg fyrir að við leitum til alþjóðlegra sérfræðinga. Ég held að það sé mjög brýnt því að þá koma oft fram ný sjónarmið eins og við sáum t.d. á ráðstefnunni í Hörpu. Hún var mjög áhugaverð, mjög fjölbreytt, og maður gat svo sannarlega fengið vísbendingar sem studdu við manns eigin staðfestingarskekkju, en þar voru hins vegar líka ýmsar ábendingar sem ýttu við manni og fengu mann til þess að hugsa.