140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Á dagskrá á eftir er eina málið að loknum umræðum um störf þingsins, fjáraukalög fyrir árið 2011. Við höfum gert athugasemdir við það áður hversu hratt á að keyra fjáraukalagafrumvarpið í gegn.

Nú bárust fregnir af því í morgun, bæði af fundum hv. fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, að til umræðu hefði verið heimild, sem staðfest verður með fjáraukalögunum sem greiða á atkvæði um seinna í kvöld, til hæstv. fjármálaráðherra til að ganga frá einkavæðingu sinni á Byr sparisjóði. Við höfum kallað eftir að fá þessa samninga. Hulunni var loksins aflétt í morgun í þessum nefndum en þó með því skilyrði að nefndarmenn mættu skoða samningana og segja frá þeim sumir en ekki sýna neinum öðrum. Á þingflokksfundum rétt í þessu gátu viðkomandi nefndarmenn ekki einu sinni upplýst þingflokka sína um hvað væri (Forseti hringir.) á seyði.

Frú forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að þessi fjáraukalög verði á dagskrá í dag og ég óska eftir því að þegar í stað verði fundað með (Forseti hringir.) þingflokksformönnum og/eða forsætisnefnd þingsins til að taka á þessum (Forseti hringir.) málum.