140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hlýtur að vera einhver misskilningur á ferðinni. Ég var því miður ekki við fjáraukalagaumræðu á mánudag vegna veikinda heima fyrir en hitti hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson í morgun. Hann tjáði mér að hann hefði óskað eftir því að fá samninginn um Byr. Ég hafði þá þegar samband við fjármálaráðuneytið og spurði hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu og það var ekki.

Aukinheldur fékk ég hjá ráðuneytinu samninginn um SpKef, sem talið var að ekki hefði verið hægt að fá. Þessum samningum dreifði ég í efnahags- og viðskiptanefnd nú klukkan rúmlega 10, þá sem trúnaðarmáli. Ég kynnti að ég mundi óska eftir því við fjármálaráðuneytið að trúnaði yrði aflétt af því eins fljótt og unnt væri. Nú í hádeginu tjáði ráðuneytið mér góðfúslega að þingmenn væru í aðstöðu til að vitna um allar þær upplýsingar sem þar kæmu fram. Ég lét þess þó getið við nefndarmenn að ég teldi ekki fara vel á því að við í nefndinni værum að dreifa eintökum eða birta samninginn í heild sinni, en það væri enginn trúnaður á þeim upplýsingum og þeir gætu upplýst sína félaga um það.

Einnig kom fram (Forseti hringir.) á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að sú umfjöllun sem starfsmenn fjármálaráðuneytisins höfðu um þetta málefni í fjárlaganefnd í gær hefði ekki verið bundin neinum trúnaði og þingmönnum væri fullkomlega frjálst (Forseti hringir.) að ræða í opinberri umræðu í þingflokkum sínum þær upplýsingar sem þar hefðu komið fram sem höfðu verið greinargóðar. Ég skil ekki hvað hv. þingflokksformaður er að vitna til og þykir heldur miður, eftir að hafa gengið hratt og vel, held ég, (Forseti hringir.) eftir upplýsingum fyrir hönd minna nefndarmanna, að þurfa að sitja undir svona umræðu í upphafi þingfundar.