140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það urðu vatnaskil í pólitískri umræðu á Íslandi í gær þegar opinberlega var staðfest að gagnrýni náttúruverndara og vinstri grænna á arðsemisútreikninga stóriðjunnar og þjóðhagslegt mikilvægi þeirra í okkar litla samfélagi er og var á rökum reist. Það var harður dómur yfir stóriðjustefnunni sjálfri, yfir stjórnmálaflokkunum sem hafa gert stóriðjustefnuna að inntaki í atvinnustefnu sinni og streitast reyndar enn við. Og það var harður dómur yfir stjórnendum Landsvirkjunar, yfir stjórnendum Orkuveitunnar og yfir þeim stjórnmálamönnum sem réðu ferð í þeim fyrirtækjum, í ráðuneytum og í borgarstjórn.

Það kemur sem sé í ljós að stór hluti fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur og skuldbindinga fyrirtækisins vegna raforkusamninga á borði og í skógi við stóriðjufyrirtækin er tapað fé. Framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíðarvirkjun fá algera falleinkunn. Þar var ekki sýnd nein fyrirhyggja, menn létu sem þeir sæju ekki viðvörunarljósin og jafnvel ekki hrunið sjálft, heldur héldu ótrauðir áfram beinustu leið fram af hengifluginu. Þannig er dómurinn. (Gripið fram í: Það er ekkert annað.)

Þegar sýnt var að Orkuveitan ætlaði að keyra í þrot var rafmagnið bara hækkað og kostnaðinum velt yfir á almenning. Sama dag er upplýst að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er ekki 13,4% eins og fyrirtækið svaraði hér í skýrslu á árunum 2007 og 2008, heldur 3,5% — langt frá þeim 11% sem nú er gerð krafa um. Þetta mun kosta 20% hækkun á raforkuverði, góðir þingmenn. (Gripið fram í: … tekið aftur …)

Tvær mínútur (Forseti hringir.) eru liðnar, of stuttur tími til að ræða stórt mál en þetta krefst mikillar umræðu í þingsölum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)