140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa skoðun á ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur eða sannleiksgildi hennar, ég þekki það ekki. Ég vil þó benda á að þarna er enn eitt málið sem vakið er upp í tengslum við þetta ágæta fjáraukalagafrumvarp sem liggur svo mjög mikið á að klára í dag. Ég bið frú forseta í allri vinsemd um að taka slíkt verklag og slík vinnubrögð til endurskoðunar. Við höfum heyrt þingmenn Vinstri grænna koma á mikilli siglingu og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem segir: Nú eru vatnaskil, nú sjá menn hvað var gert vitlaust, allir eiga að læra af því! — Ja, nema kannski vinstri stjórnin. (Gripið fram í.) Vinstri stjórnin (Gripið fram í.) telur sig ekki þurfa að fara eftir neinum lögum eða (Gripið fram í.) reglum. Hún keyrir þetta áfram í trássi við það sem rétt gæti talist af því bara; það eru „af því bara“-rökin hjá vinstri stjórninni. (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?)

Vegna þeirra hótana sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sendi íslensku þjóðinni hér áðan þegar hann sagði: Þessi ríkisstjórn er ekkert að fara, þessi ríkisstjórn ætlar að vera hér. — held ég að verri hótanir og skilaboð hafi íslenska þjóðin ekki (Gripið fram í.) fengið [Háreysti í þingsal.] í mjög, mjög langan tíma, (Gripið fram í: Heyr, heyr!) sérstaklega vegna þess — Virðulegi forseti? (Forseti hringir.) Þetta virðist hreyfa eitthvað við fólki hérna.

Hæstv. forseti. Ef þjóðin er spurð, í skoðanakönnunum a.m.k., vill hún ekki sjá þessa ríkisstjórn (Gripið fram í.) og þess vegna (Gripið fram í.) segi ég … (Forseti hringir.) Þá er kallað fram í: Ekki heldur stjórnarandstöðuna. Eftir hverju erum við þá að bíða? Af hverju gefum við ekki (Forseti hringir.) þjóðinni tækifæri til þess að velja? (Forseti hringir.) Kjósum! (Gripið fram í.) Sjáum hvað þjóðin vill, treystum þjóðinni.

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn.)

Virðulegur forseti. Fyrirgefið, ég heyrði ekki í bjöllunni fyrir frammíköllum. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Má ekki ljúga.)