140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og réðst mjög harkalega á R-listann og þátttöku VG í honum. Ég man þá tíð þegar … (ÁI: … Orkuveitu Reykjavíkur. Halló!) Bara svo að við upplýsum það að undanfarin 18 ár (Forseti hringir.) held ég þau hafi verið eða 15, 16 voru vinstri menn með Orkuveitu Reykjavíkur, ef menn eru að tala um hana, (Gripið fram í: Ha?) og R-listinn fór í stóriðjuna, tók stóriðjustefnuna. Einn kankvís hv. þingmaður Vinstri grænna tók þátt í því öllu saman.

Hér er talað um arðsemi framkvæmda. Bíddu, var ekki góð arðsemi af húsinu, LínuNeti, risarækjueldinu, hörverksmiðjunni? Hvað ef náttúruverndarsinnarnir í VG hefðu náð að fara í fjögur hundruð sumarbústaði í kringum Úlfljótsvatn, sem var að vísu stoppað af okkur? Eða, virðulegi forseti, keypt grunnnet Símans á rúmlega 20 milljarða? Það hefði nú verið sigur fyrir náttúruverndarsinna í VG. Nú koma þessir menn og segja hér: Við þurfum, virðulegi forseti, ný vinnubrögð.

Ég var að fá samningana sem við erum búin að bíða eftir. Að vísu eru ekki upphæðir í þeim, ekki uppgjörið og við höfum ekki fengið einn einasta aðila til að kynna þetta. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætlar að koma og keyra málið í gegn í dag, og allir hér, þetta nýja fólk sem er að hugsa alla hluti upp á nýtt, ný vinnubrögð, ætla að klára þetta í dag. Við vorum að fá gögnin núna. Það hefur enginn haft tækifæri af hv. þingmönnum til að kynna sér þau en menn ætla sannarlega að keyra þetta í gegn.

Ég þekki þetta, virðulegi forseti, því að ég var í borgarstjórn Reykjavíkur þegar R-listinn var við völd og þannig voru vinnubrögðin, nákvæmlega svona. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Meðal annars. (ÁI: Já, stjórnarformaður þar.) (Gripið fram í.)