140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er gott að vita til þess að hv. þm. Þór Saari er orðinn hógværi maðurinn í salnum. Þetta er búinn að vera ótrúlegur dagur.

Ég ætla að taka að einhverju leyti undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að það eru að verða hér vatnaskil í umræðu um orkumál. Við höfum á fundum umhverfis- og samgöngunefndar í morgun og fundi atvinnunefndar í síðustu viku fengið til okkar jarðfræðinga og sérfræðinga Orkustofnunar sem hafa kollvarpað allri umræðu, áætlunum og framkvæmdaáætlunum um nýtingu jarðhita. Í ljós hefur komið að hér hefur í ár og áratugi verið gengið fram í blekkingaleik hvað jarðhitann varðar. Það hefur komið fram hjá jarðfræðingum að Hengilsvæðið og Reykjanessvæðið munu hugsanlega, miðað við núverandi framkvæmdaáætlanir, verða þurrausin á 30–50 árum og íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja munu fara að kynda hús sín með olíu. Þessu hefur verið haldið leyndu fyrir fólki af áköfum virkjanasinnum. Það hafa orðið vatnaskil í umræðunni um línulagnir á suðvesturhorninu. Það hefur komið í ljós að það er HS Orka sem vill leggja raflínu frá Reykjanessvæðinu í álverið í Straumsvík og til íbúa höfuðborgarsvæðisins en ekki til Helguvíkur í álver. Þar hefur orðið kúvending á. Það hefur orðið algjör kúvending í umræðum um að koma raflínum í jörðu.

Á fundi Landsvirkjunar í gær komu fram allt aðrar upplýsingar um arðbæra nýtingu vatnsaflsauðlinda og jarðhitaauðlinda á Íslandi en áður hefur verið og það mun að sjálfsögðu rata í umræðuna um rammaáætlun. Sá kostur hlýtur að vera uppi á borði hvort það sé ekki einfaldlega umhverfisvænast að loka eins og einu álveri eða svo og nýta raforkuna í eitthvað annað frekar en að eyðileggja frekari náttúruauðlindir og umhverfislandslag þjóðarinnar í brjáluðum stóriðjueltingarleik. Rammaáætlunin bíður, hún verður spennandi.

Virkjanahugmyndir og nýsköpun sú sem sýnd var úti á Austurvelli í hádeginu (Forseti hringir.) þar sem einstaklingar úti í bæ skutu alþingisvefinn í kaf með nokkurra mánaða vinnu nokkurra einstaklinga og hafa gert það að verkum að störf þingmanna (Forseti hringir.) hvað varðar þingmál eru orðin miklu auðveldari — þann auð á að virkja en ekki eyðileggja umhverfið (Forseti hringir.) á fölskum forsendum eins og gert hefur verið hér í áratugi.