140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil gera að umtalsefni hversu gersamlega vanburðugt Stjórnarráðið er til að gefa þinginu upplýsingar. Ég tel óþarft að bæta frekar við þær upplýsingar og þá umræðu sem hér var uppi um fjárlagavinnuna og efnahags- og viðskiptanefnd í morgun og upplýsingagjöfina þangað en vil gera að umtalsefni samþykkt sem mikil samstaða var um í fjárlaganefnd fyrir réttu ári um að fara þess á leit við Byggðastofnun að gera úttekt og meta samfélagsleg áhrif af fjárlögum 2009, 2010 og 2011.

Vinnan við það verk hófst í maí og þá þegar var haft samband við fjármálaráðuneytið sem brást ágætlega við en þær upplýsingar sem komu þaðan voru að mati þeirra sem áttu að vinna þetta, Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar háskólans, gersamlega ónothæfar. Þá var leitað eftir upplýsingum frá Fjársýslunni. Með sama hætti voru þær upplýsingar sem þaðan komu þannig að það kallaði á meiri vinnu. Loks var send út fyrirspurn í ágúst til ráðuneyta þar sem spurst var fyrir um fjölda stöðugilda frá september 2007–2010 og fjölda stöðugilda 1. september 2011. Svörin voru að berast til 20. október frá þeim sem svöruðu eftir mikla eftirgangsmuni. Þrátt fyrir það sem á undan var gengið kom í ljós að gögnin sem send voru voru þess eðlis að það vantaði mikið upp á upplýsingar þannig að það er í raun engin furða að fólk geti ekki upplýst um það hvernig fjölgun starfa á vinnumarkaði er þegar ekki liggur einu sinni fyrir vitneskja um það í Stjórnarráðinu hversu margir vinna hjá ríkinu.

Það sem meginmáli skiptir er að þegar spurt var um þetta og við fengum bréf í fjárlaganefnd frá hv. formanni fjárlaganefndar um stöðu þessa máls kemur í ljós að þann 15. nóvember eru enn (Forseti hringir.) útistandandi fyrirspurnir varðandi þetta verkefni hjá þremur ráðuneytum. Svo undrast menn að við komumst hvorki lönd né strönd í brýnum hagsmunamálum (Forseti hringir.) sem við erum að vinna að.