140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er rétt að sterkar vísbendingar eru um að dýrari úrræðin séu að verða fyrstu úrræðin í heilbrigðisþjónustunni, því miður. Fyrir velferðarnefnd hafa verið lögð gögn sem sýna að frá árinu 2008 hefur kostnaður við sérgreinalækningar á reikningum Sjúkratryggingastofnunar hækkað um 7% vegna þessa meðan við vitum að í heilbrigðisþjónustunni almennt hefur verið skorið niður um um það bil 10–12% og í öðrum rekstri ríkisins um allt að 20%, ef ekki meira.

Við verðum að segja hingað og ekki lengra með þetta og stemma stigu við því að sjúklingar leiti og jafnvel verði að leita í dýrari úrræði vegna þess að það er ekki endilega alltaf betra fyrir viðkomandi sjúkling og það er klárlega dýrara fyrir ríkið. Ég tel að við eigum að endurskoða og endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna okkar og við eigum ekki að bíða mikið lengur með það. Við eigum að taka upp valkvætt tilvísanakerfi og við eigum að taka upp forvakt þar sem fólki er leiðbeint áður en það fer beint í dýrustu úrræðin á bráðadeildum sjúkrahúsanna.

Við í velferðarnefnd höfum kallað eftir ítarlegri greiningu á þessari útgjaldaaukningu. Það hefur komið fram að það er magnaukning í tilteknum sérfræðigreinum sem ekki er talin endurspegla breytingar á heilsufari landans og það hljótum við að setja sérstakt spurningarmerki við. Það þarf kerfisbreytingu og það þarf að vinna að henni strax.