140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það. Ég kalla þetta ekki að bera af mér sakir því að þessir hlutir voru svo fráleitir sem komu fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur.

Þó að maður hafi ýmislegt upplifað á Alþingi undanfarna daga, vikur og mánuði verð ég að segja að langt er nú seilst. Hv. þingmaður var að dylgja um það að ég væri sem fjármálaráðherra að standa í viðskiptum við venslamenn mína. Ég held að það væri hyggilegt og heppilegt fyrir okkur öll, og ekki síst fyrir hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að vita almennt hvað hún er að tala um áður en hún fyrir opnum tjöldum reynir að hafa af félögum sínum æruna á grundvelli misskilnings ef maður er vinsamlegur í túlkun, á grundvelli ónógra upplýsinga eða á grundvelli tilrauna til vísvitandi blekkinga.

Hið rétta í þessu máli er að ríkið er að kaupa af Reykjanesbæ (VigH: Ég sagði það líka.) tilteknar spildur út úr landi jarðanna Kalmanstjarnar og Junkaragerðis sem fyrir löngu höfðu verið seldar. Viðskiptin eru alfarið milli ríkisins og Reykjanesbæjar og eignarhald á jörðunum að öðru leyti er algerlega óskylt mál. Undir þessi viðskipti var ritað í Reykjanesbæ á dögunum við ánægjulega athöfn af mér og Árna Sigfússyni og mér vitanlega erum við Árni Sigfússon alveg óskyldir þó að feður okkar hafi borið sama nafn. Ég kæri mig ekki um afsökunarbeiðni frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur en ég fer fram á það að hv. þingmaður biðji alsaklaust venslafólk mitt, sem vissulega er í þessu tilviki, þar sem eru systir mín og mágur, og aðra eigendur jarðanna Kalmanstjarnar og Junkaragerðis afsökunar. Þetta er ósæmilegur málflutningur og Alþingi til skammar ef ekki er umsvifalaust beðist afsökunar á því að bera slíkt á borð. (Gripið fram í: Heyr!)