140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[15:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að við vorum að fá þessa samninga í hendurnar. Annar er á okkar ylhýra máli, hinn er á ensku og eins og við vitum megum við ekki tala það tungumál í þessum stól en það er aukaatriði.

Ég fer fram á það við virðulegan forseta að við þingmenn — hér er jafnan talað um mikilvægi vandaðra vinnubragða — fáum tóm til að kynna sér efni þessara samninga og þeirra viðskipta sem við erum að ganga frá á eftir.

Menn hafa þá stundum verið að tala um tölur sem kannski eru ekkert ýkjaháar, hundruð milljóna kannski. Í þessu tilviki erum við að tala um milljarða, jafnvel tugi milljarða.