140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[15:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra brýndi okkur hér áðan, hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, að vera almennt búin að kynna okkur mál áður en við tækjum þau til umfjöllunar og ræddum þau á hinu háa Alþingi. Ég ætla að taka áskorun hans og ég óska eftir því að hæstv. forseti geri það líka.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að við, þingmenn í þessum sal, höfum ekki getað kynnt okkur þá samninga sem hér hafa verið til umræðu af þeirri einföldu ástæðu að þeir voru afhentir fyrir hálftíma. Þetta eru flóknir gjörningar. Ekki er nokkur leið fyrir okkur að vera búin að kynna okkur þessi mál og ég fer fram á að fá tíma til þess. Vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars áðan vil ég segja: Jafnvel þótt allt sem hann sagði, um það hvernig þessir samningar hefðu verið kynntir, við hefðum getað vísað til þeirra á þingflokksfundi, væri rétt þá dugar það ekki til.