140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér hafa komið fram óskir, m.a. frá hæstv. fjármálaráðherra, að menn vandi sig við umræður á þingi og frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að fólk taki til greina gagnrýnisraddir á arðsemi framkvæmda. Í fjáraukalögum sem á að ræða hér á eftir, á að ræða eitthvað sem þingmenn hafa ekki fengið að sjá. Það er ekki nokkur einasta leið fyrir þingmenn að taka afstöðu til málsins vegna sölusamninga í sparisjóðum sem þingmenn hafa ekki fengið að sjá. Þetta eru óboðleg vinnubrögð.

Hitt lýtur að hinu málefninu sem á að ræða hér, um Vaðlaheiðargöng, án þess að beðið sé eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið, sem forseti þingsins sjálfur er þó búinn að biðja um. Ég hef oft gagnrýnt Alþingi fyrir að vera vinnustað þar sem stunduð eru óvönduð vinnubrögð. Dagurinn í dag er skýr birtingarmynd þess, því miður.