140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í tilefni þessarar umræðu er rétt að upplýsa að þegar fjárlaganefnd fékk fulltrúa fjármálaráðuneytisins á sinn fund upplýstu þeir að þrír aðilar yrðu að taka afstöðu til samninganna: Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og Alþingi. Alþingi var í þeirri stöðu að hafa ekki fengið að sjá samninginn áður en þeirrar afstöðu var krafist af okkur. Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið hafa hins vegar legið yfir samningnum. Þetta er að mínu mati í hæsta máta óeðlileg afstaða fjármálaráðuneytisins til þingsins.

Að mínu mati er nauðsynlegt fyrir þingið að fara í gegnum það og samræma hvernig nefndir þingsins eiga að fara með trúnaðarupplýsingar sem farið er fram á að þær haldi utan um. Í það minnsta er augljóst af umræðunni að meðferð samninganna sem hér um ræðir er misjöfn í fjárlaganefnd annars vegar og (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefnd hins vegar og það er langur vegur frá að það sé eðlilegt.