140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir beiðni þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um að hæstv. forseti geri hlé til þess að við getum kynnt okkur þá tvo samninga sem verið var að dreifa til nokkurra þingmanna í þingsalnum. Ég fékk m.a. tækifæri til að taka ljósrit af því eintaki sem var dreift hérna. Það er náttúrlega algjörlega ótækt að eintök af þessum samningum liggi ekki frammi í hliðarherbergi eins og gengur og gerist með gögn sem eru til dreifingar fyrir þingmenn. Ég vil því líka koma þeirri beiðni á framfæri við hæstv. forseta að hér liggi frammi að minnsta kosti 63 eintök af samningunum og að umræðunni um lokafjárlög fyrir árið í ár verði frestað þannig að við getum kynnt okkur samningana (Forseti hringir.) áður en til atkvæðagreiðslu kemur.