140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Ólafar Nordal og kalla eftir svörum. Við höfum staðið hér og spurt hæstv. forseta ýmissa spurninga sem ekki hefur verið svarað. En ég kem einnig hingað upp vegna orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem mæltist til þess að við tækjum ekki efnislega umræðu um þetta mál heldur drifum í að greiða atkvæði um hvort þingfundur mætti standa fram á nótt ef þess yrði óskað og svo gætum við tekið efnislega umræðu.

Nei, frú forseti, það er einmitt það sem við erum að gera athugasemd við og ég vildi koma þeim skilaboðum til þingmannsins sem hefur greinilega ekki verið að hlusta. Við erum að gera athugasemd við það að 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið hefjist áður en menn hafa haft tækifæri til að kynna sér þau gögn sem menn voru að fá í hendurnar, þessa samninga sem varða einkavæðingu hæstv. fjármálaráðherra á (Forseti hringir.) fjármálastofnunum. Þess vegna viljum við fá hlé og svör (Forseti hringir.) frá hæstv. forseta.