140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nú er mér tjáð af nefndarmönnum að sá samningur sem þeir hafi fengið í hendur væri ekki allur samningurinn, það vantaði í hann blaðsíður og eitthvað þess háttar. Það væri gaman að vita hvort einhverjir þingmenn stjórnarliðsins geti staðfest að svo sé, að þetta sé ekki allur samningurinn sem þingmenn fengu til að lesa. Ef svo er, er málið enn þá furðulegra ef það er þannig að einhver samningur er kynntur fyrir nefndarmönnum, frú forseti, og það vantar í hann blaðsíður, hann er ekki allur þar sem hann er séður þessi samningur.

Við hljótum í það minnsta að ætlast til að samningurinn komi hér inn í heild sinni. Það er mjög sérkennilegt að vera að dreifa einhverjum hluta af samkomulagi og reyna að láta það líta þannig út að nú sé búið að kynna þetta fyrir þingmönnum. Við hljótum að gera þá kröfu að fundi verði frestað þannig að hægt sé að ganga í þetta mál. (Forseti hringir.) Þetta er ekki hægt.