140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það halda hér áfram að hlaðast inn upplýsingar um andverðleikasamfélagið Alþingi þegar kemur að afgreiðslu fjáraukalaga. Ég verð að lýsa hneykslan minni á framkvæmd málsins hér á Alþingi. Það hefur komið í ljós að hér á að fara að ræða mál sem þingmenn hafa ekki fengið að kynna sér. Þeir fáu þingmenn sem hafa séð málið hafa ekki fengið nema hluta af því, það vantar í það blaðsíður. Það að búið sé að breyta dagskrá þingsins og flýta fjáraukalögum er ekki heilagt mál. Það á einfaldlega að fresta þessu máli til 30. nóvember eins og upphaflega stóð til. Þá gefst nægur tími til að fara yfir fjáraukalögin, þá gefst nægur tími til að fá skýrslu ríkisendurskoðanda um framkvæmdina við Vaðlaheiðargöng þar sem um er að ræða upphæð, að minnsta kosti 11 milljarða, jafnvel 15 milljarða, sem menn vita ekkert um hvort gengur upp eða ekki. Svona asi er ekki boðlegur Alþingi Íslendinga. Fjárlaganefnd og formaður fjárlaganefndar eru einfaldlega að bregðast hlutverki (Forseti hringir.) sínu sem eftirlitsaðilar með framkvæmdarvaldinu með þessum vinnubrögðum.